Hvað er blóðþrýstingur

Blóðþrýstingur er þrýstingur blóðsins í slagæðum líkamans og er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til líffæra. Hjartað skapar þennan þrýsing þegar það slær til að dæla blóðinu um æðakerfi líkamans.

Hvernig er blóðþrýstingur mældur ?

Blóðþrýstingur er mældur í tveimur gildum t.d. 130/80. Fyrri talan sem sýnir meiri þrýsting kallast efri mörk eða slagbilsþrýstingur og er mæld þegar hjartað dregst saman til að dæla blóði út í líkamann en þá mælist blóðþrýstingur hæstur. Sú síðari sýnir blóðþrýsting þegar hjartað slakar til fyllingar og kallast neðri mörk eða hlébilsþrýstingur.

Auðvelt er að mæla blóðþrýsting, en til þess eru notaðir blóðþrýstingsmælar. Hægt er að láta mæla blóðþrýsting í mörgum apótekum, líkamsræktarstöðvum, heilsugæslum, Hjartavernd og á fleiri stöðum.

Athugið að blóðþrýstingur getur verið mismunandi eftir líðan. Til dæmis hafa streita, andleg líðan og þreyta áhrif á blóðþrýsting. Því er gott að gefa sér nægan tíma þegar farið er í mælingu svo hún verði sem árangursríkust. Gott getur verið að setjast niður og slaka aðeins á áður en farið er í mælingu.

Eðlilegur blóðþrýstingur

Blóðþrýstingur er eðlilegur ef efri mörk eru undir 130 og neðri mörk undir 85. Ef blóðþrýstingurinn mælist hærri en 140/90 í hvíld er um að ræða háþrýsting eða of háan blóðþrýsing.

Ef blóðþrýstingurinn mælist hærri en 140/90 í hvíld er um að ræða háþrýsting eða of háan blóðþrýsing.

Einkenni háþrýstings

Sjaldnast gerir fólk sér grein fyrir því að það sé með of háan blóðþrýsting. Um helmingur hefur yfirleitt engin einkenni. Háþrýstingur er því stundum nefndur „hinn þögli dauði,“ en hár blóðþrýsingur ásamt reykingum og of háu kólesteróli ein helsta orsök æðakölkunar. Einkenni sem geta átt rætur að rekja til háþrýstings eru oft truflanir í annarri starfsemi líkamans og geta m.a. verið sljóleiki, höfuðverkur, taugaóstyrkur, krampar, hjartatruflanir, þreyta og nýrnatruflanir, svo eitthvað sé nefnt. Því er mikilvægt að láta kanna blóðþrýstingin reglulega.

Hvað veldur háþrýstingi?

Þrátt fyrir margra ára rannsóknir hefur ekki fundist einhlít skýring á því hvað veldur háþrýstingi. Í stöku tilvikum finnst undirliggjandi orsök eins og þrengsli í nýrnaslagæð, ofvirkni í nýrnahettum eða skjaldkirtli. Mun algengara er þó að engin undirliggjandi orsök finnist. Þó er vitað að meiri líkur eru á að fá háþýsting ef maður á náinn ættingja sem hefur haft háan blóðþrýsting. (mataræði.is)

Hvað er hægt að gera við háum blóðþrýsting ?

Yfirleitt eru lyf notuð gegn of háum blóðþrýsting. Þó geta breyttar lífsvenjur lagað ástandið og blóðþrýstingur getur orðið eðlilegur. Þar má nefna breytt mataræði, minni saltneysla, aukin hreyfing og fækkun aukakílóa. Það er sjálfsagt að beita þessum aðferðum til að lækka blóðþrýstinginn en oftast þarf jafnframt þessu að taka lyf sem halda þarf áfram árum saman. Í raun er ekki verið að meðhöndla orsök háþrýstingsins, heldur aðeins hækkunina sjálfa. 

Best er að panta tíma hjá heimilislækni og fá tilmæli um hvernig taka eigi á háþrýstingi. 

Heimildir og ýtarefni.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar