Hvað er verðbólga? Í mjög stuttu máli er verðbólga það þegar verð á vöru og þjónustu hækkar.

Í þessari grein verður farið yfir hvað verðbólga er, hvað veldur henni og hvað er hægt að gera til að halda verðbólgu í lágmarki.

Hvað er verðbólga?

Þegar verð á vörum og þjónustum hækkar heilt yfir kallast það verðbólga. Verðbólga er mæld útfrá vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánaða. Vísitala neysluverðs er meðaltal verðs á mismunandi vöru og þjónustu. Vísitala neysluverðs mælir meðaltal en ekki hækkun á einstakri vöru eða þjónustu.

Hvað veldur verðbólgu?

Margt getur valdið verðbólgu en hægt er að skipta þeim ástæðum í þrjá flokka til að einfalda hlutina. Þeir flokkar eru:

  • verðbólga vegna eftirspurnar
  • verðbólga vegna kostnaðar
  • innbyggð verðbólga

Verðbólga vegna eftirspurnar á sér stað þegar eftirspurn er meiri en framboð. Tökum sem dæmi rafmagnshjól. Ef öllum myndi langa í rafmagnshjól allt í einu myndu framleiðendur rafmagnshjóla ekki geta annað eftirspurn. Til að reyna að viðhalda eftirspurn þrátt fyrir skort á framboði myndu framleiðendurnir hækka verð. Með því geta þeir dreift eftirspurninni yfir lengra tímabil því sennilega myndu einhverjir hugsa sig betur um ef verðið á rafmagnshjólinu hækkar.

Verðbólga vegna kostnaðar á sér stað nákvæmlega eins og maður gæti hugsað sér við að lesa nafnið, vegna aukins kostnaðar. Tökum aftur sem dæmi rafmagnshjól. Til að búa til rafmagnshjól þarf mótor, batterý, dekk, grind og fleira. Ef verð á rafmagni hækkar kostar það meira að framleiða t.d. grindina fyrir hjólið sem skilar sér í hærri kostnaði við að framleiða rafmagnshjólið og á endanum kostar rafmagnshjólið meira. Þetta dæmi myndi eiga við allar vörur sem nota mikið rafmagn við framleiðslu.

Innbyggð verðbólga á sér stað í stuttu máli, vegna verðbólgu. Með öðrum orðum, ef að verðbólga er til staðar getur hún ollið meiri verðbólgu. Ef að verðbólga er til staðar og fólk býst við áframhaldandi verðbólgu getur það til dæmis gerst að fólk á vinnumarkaði krefjist launahækkanna vegna minni kaupmátts vegna hærra verðs. Segjum sem svo að laun á vinnumarkaði séu hækkuð og meiri peningur sé í umferð vegna þess. Þá hækkar kaupmáttur og eftirspurn eykst og ef framleiðendur ráða ekki við aukna eftirspurn og hækka verð, þá hækkar verðbólga ennþá meira.

Hvernig er hægt að halda aftur af verðbólgu?

Verðbólga á sér stað vegna of mikils magns af peningum í hagkerfinu. Þessvegna er eitt mest notaða tólið til að halda aftur af verðbólgu stýrivextir. Til að minnka magn peninga í umferð, eru stýrivextir notaðir til að hækka kostnað lántöku. Þegar að stýrivextir hækka, hækkar kostnaðurinn við það að taka lán. Á Íslandi setur seðlabanki Íslands stýrivexti. Þegar Seðlabankinn setur stýrivexti þá er talað um þá vexti sem Seðlabankinn býður fjármálastofnunum á lánum til þeirra.

Annað verkfæri sem Seðlabankinn getur nýtt til að hafa stjórn á verðbólgu er að setja viðmið um það hve mikinn pening bankar þurfa að eiga inni á reikningi. Með þessu viðmiði getur Seðlabankinn dregið úr magni fjármagns í umferð.

Þetta eru tvær algengustu aðferðir Seðlabanka Íslands til að halda aftur af verðbólgu.

Verðbólga getur átt sér stað vegna margra mismunandi þátta og mikilvægt er að hafa í huga að ef það er verðbólga í t.d. Evrópu þá flyst sú verðbólga til Íslands og getur haft áhrif á verðbólgu innanlands.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar