Hvað er lögheimili?

Lögheimili er staðurinn sem maður hefur fasta búsetu.  Föst búseta er í raun staðurinn  þar sem maður býr, geymir dótið sitt og sefur.  Hins vegar, þó þú sért á sjúkrahúsi, í fangelsi eða í heimavistaskóla í langan tíma, þá breytist lögheimilið þitt ekki.  Lögheimili fylgja réttindi og skyldur og því skiptir það vissulega máli hvar það er.

Má ég vera með lögheimili annars staðar en ég bý?

Enginn getur átt lögheimili á tveimur stöðum á Íslandi í einu.

 • Ef maður býr á tveimur stöðum, t.d. vinnur á einum stað á veturna og býr einhversstaðar annarsstaðar á sumrin og í fríum þá á maður að vera með lögheimili þar sem maður dvelst meiri hluta árs.
 • Ef maður er í skóla þá má maður hafa lögheimili einhversstaðar annarsstaðar, til dæmis ef maður býr í stúdentaíbúð við Háskóla Íslands, en á foreldra á Hvammstanga sem maður býr hjá á sumrin og um hátíðirnar.  Eftir að maður lýkur námi þarf maður hins vegar að flytja lögheimilið sitt þangað sem maður býr, nú eða flytja aftur heim á Hvammstanga.
 • Ef þú býrð í útlöndum vegna náms eða veikinda getur maður átt áfram lögheimili á Íslandi.  Þá skráir maður bara að maður hafi “aðsetur” í því landi sem maður býr í.
 • Ef þú ert á Alþingi hefur þú áfram lögheimili í því sveitarfélagi sem þú bjóst í (og væntanlega bauðst þig fram í).

Reglur um lögheimili:

Þetta er ekki tæmandi listi, en hann má finna í lögum um lögheimili frá 1990.

 • Ef maður ætlar að eiga heima á Íslandi í 6 mánuði eða lengur þarf maður að skrá lögheimilið sitt.
 • Hjón verða að hafa sama lögheimili.
 • Börn (yngri en 18 ára) hafa sama lögheimili og foreldrar sínir.  Ef að barn býr ekki hjá báðum foreldrum hefur það lögheimili hjá því foreldri sem það býr hjá.  Barn er bara með eitt lögheimili, þó svo að foreldrarnir séu með sameiginlega forsjá.

Hvernig breytir fólk um lögheimili?

Flutningur á lögheimili er tilkynntur til Þjóðskrár.  Auðveldast er að gera það með Íslykli á vef þjóðskrár.  Þú getur einnig gert það með því að fara á skrifstofu Þjóðaskrár, Borgartúni 21, Reykjavík.  Engin gjöld þarf að greiða fyrir flutning á lögheimili. Tilkynna þarf lögheimili innan 7 daga frá flutningi.

Þegar fólk færir lögheimili er einnig sniðugt að…

 • tilkynna Póstinum um nýtt lögheimili. Það má gera á vefsíðu Póstsins.
 • tilkynna Já.is um nýtt lögheimili til að færa það í símaskrá. Það má gera á vefsíðunni ja.is.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar