Flest okkar höfum við kynnst flokkun á einhvern hátt. Við vitum kannski að pappírinn fer í pappatunnu, plastið í plasttunnu og óflokkanlegur heimilisúrgangur fer í almennu svörtu tunnuna.
En hvað með öll vafamálin? Á að flokka bökunarpappír í pappa? Fara glerkrukkur í almennt sorp? Hvað með áldósir? Hvert fara þær?
Hvernig flokkast ólík efni?
Byrjum á byrjuninni: Hér eru helstu flokkar samkvæmt leiðbeiningum Sorpu.
- Nytjahlutir; t.d. nothæfir og seljanlegir hlutir eins og borðbúnaður, leikföng, raftæki og húsgögn. Nytjahlutum er skilað í nytjagáma á endurvinnslustöðvum.
- Föt og klæði; t.d. gluggatjöld, sængurver, teppi, koddar og fatnaður. Föt og klæði eru sett í poka og skilað í grenndargáma Rauða krossins eða á endurvinnslustöðvar.
- Pappír og pappi, t.d. fernur, pítsukassar, dagblöð og auglýsingapóstur. Pappír og pappi fer í bláu tunnuna, í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar.
- Plast; t.d. einnota plastumbúðir, dollur, bakkar og brúsar. Plast fer í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar.
- Flöskur og dósir; t.d. úr áli, plasti og gleri. Flöskur og dósir fara á endurvinnslustöðvar eða í grenndargáma grænna skáta.
- Málmar; t.d. niðursuðudósir, álpappír, álbakkar, málmlok af krukkum, sprittkertakoppar og rafmagnsvírar. Málmum er skilað á endurvinnslustöðvar eða sett beint í svörtu tunnuna (ekki í poka).
- Gler og steinefni; t.d. speglar, flísar, glerkrukkur, múrsteinar, postulín og keramikmunir. Gler og steinefnum er skilað á endurvinnslustöðvar.
- Lífrænn úrgangur; t.d.matarleifar, afgangar, bleyjur og gæludýraúrgangur. Lífrænn úrgangur fer í svörtu tunnuna í poka.
- Spilliefni og raftæki; t.d. rafhlöður, spreybrúsar, málning, olíuefni, ljósaperur og ónýt raftæki. Spilliefni og raftæki fara í spilliefna- og raftækjgáma á endurvinnslustöðum.
Leysum úr vafamálum!
Hér er listi yfir ýmis vafamál sem geta komið upp við flokkun:
- Bökunarpappír fer í svörtu ruslatunnuna,
- Maskari flokkast í plast og alment rusl (skola hylkið og setja í plast),
- Sellófan er ekki plast og fer í svörtu ruslatunnuna,
- Gluggaumslög má setja beint í pappa,
- Það á að hreinsa úr tannskremstúpum og barnaskvísum eins og hægt er; áður en þær eru síðan flokkaðar,
- DVD diskar mega fara í plast en spólur fara í almennan úrgang,
- Maíspokar fara í almennan úrgang eða jarðgerðarfarveg,
- Rakblöð úr plasti og stáli mega fara í plast,
- Tómum lyfjaspjöldum á að skila í apótek,
- Snyrtivörur flokkast ekki alltaf sem spilliefni, t.d. krem, augnskuggar,
- Naglalökk og ilmvötn flokkast þó sem spilliefni,
- Pumpur á ilmvatnsglösum og sápubrúsum eru oftast flokkaðar sem plast,
- Pokar undan örbylgjupoppi fara í almennt rusl,
- Kveikjara á að setja í spilliefni sé gas í þeim. Annars eru þeir flokkaðir í málm eða plast; eftir því sem við á,
- Prenthylki flokkast sem spilliefni en plast ef þau eru tóm. Tónerar úr stærri vélum flokkast sem raftæki,
- Gleraugu er hægt að fara með í nytjagám Góða hirðisins ef þau eru nothæf. Ef ekki, þá flokkast þau eftir þeim efnivið sem er mest af í þeim, t.d. plast, gler eða málmur,
- Kassakvittanir fara í pappír,
- Niðursuðudósir mega fara pokalaust í svörtu tunnuna.
Ertu ennþá óviss um eitthvað? Hér má leita sérstaklega eftir flokkun ákveðinna hluta/efna.
- Athugið. Greinin miðar við flokkunarkerfi Sorpu, það getur verið mismunandi eftir bæjarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum hvernig er flokkað. Því mælum við með því að allir skoði hvernig flokkun er háttað í sínum heimabæ.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?