Hvar er að finna heitar laugar á Íslandi?
Þegar ferðast er um landið er fátt skemmtilegra en að svipta sig klæðum og baða sig í guðsgrænni. Víða má finna heitar laugar og fágætar náttúruperlur, þar sem vatnið er nógu heitt til að hægt sé að baða sig í því. Áttavitinn hefur tekið saman nokkra staði á landinu þar sem finna má heitar laugar. Vilji fólk afla sér frekari upplýsinga má einnig verða sér úti um gagnlega og skemmtilega bók sem nefnist Heitar laugar á Íslandi, eftir þau Jón G. Snæland og Þóru Sigurbjörnsdóttur. Þar má finna enn fleiri laugar og frekari upplýsingar um þær laugar sem minnst er á hér.
Vestfirðir
Hellulaug
Laugin er um 3×4 metrar að stærð og um 60 cm að djúp. Hún er staðsett um 500 metrum frá þjónustumiðstöðinni í Flókalundi. Laugin er falin neðan við barð í fjöruborðinu. Best er að ganga að lauginni austan frá. Við laugina er klöpp þar sem hægt er að leggja frá sér föt og annað sem haft er meðferðis. Hafa skal í huga að við laugina er engin búningaaðstaða. Hægt er að gista í Flókalundi eða tjalda á tjaldstæðinu þar. Nánar má lesa um staðinn og þjónustu þar í kring á vef Flókalundar.
Norðurland
Grettislaug
Grettislaug er við Reykjaströnd í Skagafirði vestanverðum. Ekið er út fyrir Sauðárkrók og beygt inn á veg 748. Laugin er sporöskjulaga, 3-4 metrar í þvermál og tæpur metri að dýpt. Hitastigið er 42-43°C og botninn er hulinn möl og grjóti. Önnur stærri laug er svo skammt frá, aðeins nær sjávarmálinu. Hún er 3-5×9 metrar og metri að dýpt. Kantur hennar er steyptur en að innan er grjóthleðsla sem gerir hana afar náttúrulega. Feðgar, sem reka ferðaþjónustu frá Reykjaströnd hafa byggt upp aðstöðu fyrir ferðamenn og bjóða upp á tjaldstæði. Einnig hefur verið reist hreinlætisaðstaða í torfkofa í um 100 metra fjarlægð frá lauginni.
Stóragjá
Stóragjá í nágrenni Mývatns er hlý og notaleg náttúrulaug, sem staðsett er inni á milli stórra kletta. Hún er nánast alveg við þjóðveginn á gatnamótunum við Reykjahlíð og tjaldstæðin. Gjáin er djúp og til að fara niður í hana þarf að fara niður tvo stiga. Hægt er að ganga eftir gjánni en einnig er hægt að láta sig síga niður í vatnið í gjásprungunum með því að notast við kaðal, sem er á staðnum. Engin búningaaðstaða er á svæðinu, en hægt er að leggja fötin frá sér upp við klettana. Landeigendur Reykjahlíðar eru eigendur Stórugjár og þekkja vel til. Ráðlegt að ráðfæra sig við þá um ástand gjárinnar áður en farið er ofan í, þar sem stundum hafa aðstæður ekki þótt henta til þess. Nýlega (2018) hefur verið ráðlagt að baða sig ekki í lauginni vegna e-coli bakteríu Þegar aðstæður leyfa er bað í Stórugjá þó án efa eitt það ævintýralegasta sem hægt er að gera þegar maður er á ferð um landið.
Jarðböðin við Mývatn
Fólk hefur notið jarðbaðanna við Mývatn svo öldum skiptir, en aðstaðan eins og hún er nú var formlega tekin í notkun árið 2004. Nú er þar glæsileg baðaðstaða, ásamt verslun og veitingastað, -og það er alls ekki ókeypis að dýfa sér ofan í. Það er hinsvegar alveg þess virði, ef maður á leið um Mývatn. Upplifunin af gufunni og ævintýralegu landslaginu þar í kring er nánast yfirnáttúruleg, sér í lagi þegar maður heimsækir jarðböðin að kvöldlagi. Jarðböðin eru náttúrulaug sem búið er að betrumbæta með byggingu mannvirkja í kring. Þau eru nokkurs konar Bláa lón norðursins. Dálítið öðruvísi, en alls ekki síðri! Nánar má sjá um jarðböðin á vef Jarðbaðanna í Mývatni.
Baðlaug við Kaldbak
Svæðið við Kaldbak er rétt sunnan við Húsavíkurkaupstað. Þar hefur verið stífluð myndarleg tjörn sem í rennur heitt vatn. Það er ekki svo ýkja heitt, kannski á bilinu 20°-30°C, en það er nóg til að hægt sé að synda á meðal gullfiska á fögrum sumardögum. Þegar komið er að tjörninni liggur bogadregin göngubrú yfir volgan affallslækinn sem rennur í hana og mikil gróðursæld er þar allt í kring.
Þeistareykjalaug (..kann að vera uppþornuð)
Þeistareykjasvæðið er vel kunnt ferðamannasvæði. Þar má m.a. finna stóran helli sem nefnist Togarahellir og fara upp að Vítum; Litla- og Stóravíti, annað hvort gangandi eða á jeppum. Þeistareykjalaug er undir Bæjarfjalli, vestan við Þeistareykjabungu um 150 metrum austan við Þeistareykjarskálana. Stíflað hefur verið fyrir heitan læk, með torfi og grjóti og er laugin mátulega heit til að hægt sé að baða sig í henni. Hún rúmar stóran hóp fólks, en í henni er leirbotn svo hún gruggast töluvert við notkun. Þeistreykjarskálarnir eru í umsjón Húsavíkurdeildar 4×4 og vélsleðamanna á Húsavík. Þeir standa ferðamönnum opnir, pláss er fyrir 30 manns og svefnpláss fyrir 18 manns í kojum. Þar er eldavél og rennandi vatn og því tilvalið að snæða þar kvöldverð eftir gott bað í lauginni. Ef það er enn vatn í henni.
Austurland
Laugarfellslaug
Eigandi Laugarfellslaugar er Prestsetrasjóður og er laugin skráð á prestsetrið Valþjófsstað. Til að komast að lauginni er ekið um Snæfellsveg (910) á Fljótsdalsheiði og beygt austur afleggjara sem liggur niður með Laugará. Búið er að brúa vaðið sem áður var ófært fyrir fólksbíla. Því er hægt að keyra alla leið að Laugarfellsskálunum. Þar er ökutækið skilið eftir og gengið að lauginni. Hún er grafin í moldarkenndan jarðveg, en veggir hennar eru hlaðnir úr stóru, flötu grjóti. Laugin er hringlaga, 3,5 metri að breidd og um 70 cm djúp. Hitastig Laugarfellslaugar er um 40°C. Á svæðinu er einnig stór setulaug.
Suðurland
Bláa lónið
Bláa lónið þekkja áreiðanlega flestallir Íslendingar, -og einnig útlendingar sem sótt hafa landið heim, enda er lónið fyrsti ferðamannastaðurinn sem tekur á móti ferðamönnum sem lenda í Leifsstöð. Bláa lónið er á Reykjanesskaganum og hefur notið gríðarlegra vinsælda, enda einstök náttúruperla sem hefur í för með sér mikinn lækningamátt. Psoriasis sjúklingar hafa náð miklum bata með því að bera á sig hvítleita leðjuna sem safnast fyrir í botni og á bökkum lónsins. Fyrir rúmum áratug var öll aðstaða við Bláa lónið bætt til muna og nú er þar þjónustumiðstöð, veitinga- og ráðstefnusalir og fyrsta flokks ferðamannaaðstaða, -enda er Bláa lónið vafalaust dýrasti baðstaður landsins.
Vígðalaug
Vígðalaug við Laugarvatn er einnig talin búa yfir yfirnáttúrulegum lækningamætti, sér í lagi við augnverk. Til forna voru líka margir skírðir í Vígðulaug. Laugin er hringlaga, hlaðin úr grjóti og í gegnum hana rennur volgur lækur. Laugin er um 160 cm í þvermál og 30 cm djúp. Þrátt fyrir grunnt vatn er þó kannski vel þess virði að tylla sér ofan í og reyna á eigin skinni þann yfirnáttúrulega mátt sem laugin er sögð hafa að geyma. Sér í lagi ef fólk er þreytt í augunum eftir langan akstur.
Hrunalaug
Kvika
Hálendið
Landmannalaugar
Hveravellir
Borholan í Kerlingarfjöllum
Laugafell