Hæ
Hvernig kynnist maður einhverjum í dag? Hvaða stefnumótasíður eru mest vinsælar? Hvar er best að kynnast einhverjum?
Ég er 24 ára og finnst ég ótrúlega einmana. Ég er í meistaranámi og nánast allir í bekknum mínum eru í sambandi nema ég, það er ótrúlega sárt eitthvað, sérstaklega þegar samböndin eru oftast það eina sem þau vilja tala um. Manni líður pínu eins og þau séu að nudda mér upp úr því að vera einhleyp með því að tala alltaf um samböndin.
Ég hef verið í sambandi en því lauk rétt fyrir Covid. Í gegnum Covid þá einangraðist ég mjög mikið og ég kann ekkert á stefnumótamenninguna í dag. Er fólk að hittast í persónu eða í gegnum netið eða hvað? Finnst ég svo heimsk að vita þetta ekki.
Fyrirfram þakkir
Sæl og takk fyrir að hafa samband við ráðgjöf Áttavitans,
Það eru alls konar leiðir til að kynnast nýju fólki í dag. Það er til dæmis hægt að nota stefnumótaforrit eins og Tinder og Smitten sem eru mjög vinsæl á Íslandi í dag. Það er engin ein rétt leið að nálgast samskipti á stefnumótaforritum heldur bara að finna hvað hentar þér. Síðan er hægt að efla tengslanetið með því að auka við félagsveru í samfélaginu. Íþróttir, líkamsrækt, vinna, sjálfsboðaliðastörf, skiptinám, næturlíf og aðrar tómstundir geta víkkað sjóndeildarhringinn þinn hvað varðar nýtt fólk. Síðan er alltaf hægt að bjóða fólki á stefnumót. Það þarf ekki að vera flóknara en ísbíltúr eða kaffihús. Þú ert allt ekkert heimsk fyrir að vera ekki með allt á hreinu í sambandsmálum. Tvítugsárin eiga að vera tíminn þar sem maður er ekki með allt á hreinu og er læra inn á hitt og þetta í lífinu. Það þarf heldur ekki að vera ókostur að vera einhleyp á þessum fyrstu árum fullorðinsævinnar þar sem maður er að læra inn á sjálfan sig og öðlast sjálfstæði í lífinu. Það krefst hugrekkis og smá berskjöldun að kynnast nýju fólki en það er þess virði að láta reyna á það:)!
Ég vona að þér gangi sem best!
Ráðgjafi Áttavitans
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?