Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að lögfræðingum.

Hvað gerir lögfræðingur?

Lögfræðingar eru þeir sem hafa lokið BA eða BS prófi og meistaragráðu í lögfræði. Lögfræðingar sinna lögfræðilegri ráðgjöf og aðstoð, bæði á opinberum vettvangi og hjá einkafyrirtækjum. Lögfræðingar sinna meðal annars:

  • Upplýsingagjöf um réttarstöðu, réttindi og skyldur.
  • Samningsgerð.
  • Ráðgjöf um stofnun fyrirtækja.
  • Frágangi á skjölum; svo sem erfðaskrám, afsölum og skuldabréfum.
  • Skuldaskilum og aðstoða fólk og fyrirtæki við úrlausn fjármála.
  • Réttargæslu.
  • Vörn sakborninga í refsimálum.

Taka skal fram að munur er á starfsheitinu lögfræðingur og lögmaður. Lögmenn hafa leyfi til þess að gæta hagsmuna annarra fyrir dómstólum en það hafa lögfræðingar ekki. Ekki eru allir lögfræðingar sem lokið hafa meistaraprófi í lögfræði lögmenn – en allir lögmenn eru hins vegar lögfræðingar. Til þess að vera lögmaður og geta farið með mál fyrir dómstóla þarf að sækja um lögmannsréttindi, en það gerir maður hjá sýslumanni.

Hvernig veit ég hvort lögfræði sé eitthvað fyrir mig?

Lögfræðingar þurfa að vera heiðarlegir, þolinmóðir og eiga auðvelt með mannleg samskipti. Einnig þurfa þeir að vera með góða skipulagshæfni, sýna nákvæmni í vinnubrögðum og geta unnið undir álagi. Ef að þessir eiginleikar eiga við um þig gæti vel verið að lögfræðin henti þér.

Hvar lærir maður að verða lögfræðingur?

Háskólanám í lögfræði er þriggja ára nám til BA eða BS gráðu en til þess að fá að fá fullnaðarpróf og starfsheitið lögfræðingur þarf að ljúka 2 ára meistaranámi. Á Íslandi geturðu numið lögfræði við fjóra skóla:

Boðið er upp á bæði grunnnám og meistaranám í þessum skólum. Eftir að hafa lokið bæði þriggja ára grunnámi og meistaraprófi í lögfræði fær maður titilinn lögfræðingur og í framhaldinu af því getur maður ákveðið hvort maður vilji sækja um lögmannsréttindi til þess að hafa leyfi til að verja mál fyrir dómstólum.

Hvar mun ég svo starfa sem lögfræðingur?

Lögfræðingar starfa á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Sem lögfræðingur getur þú starfað innan fyrirtækja, í stjórnunarstöðum, við ráðgjöf, á lögfræðistofum, í ráðuneytum og opinberum stofnunum, hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingastofnunum svo dæmi séu tekin. Einnig getur þú starfað við dómara- og lögmannsstörf hafir þú sótt um lögmannsréttindin.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar