Tvíkynhneigðir þurfa að laðast jafnt að strákum og stelpum
Rangt! Það er ekkert rétt eða rangt svar við tvíkynhneigð. Þú ert sá eða sú sem skilgreinir eigin kynhneigð. Þannig getur þú getur verið tvíkynhneigð(ur) þrátt fyrir að fara eingöngu á “deit” með stelpum, en laðast einnig að strákum. Tvíkynhneigðir geta laðast að mismunandi kynjum á mismunandi tímum í lífinu. Það er: einstaklingurinn er aðlaðandi, ekki kynið. Það að vera tvíkynhneigð(ur) tekur líka til greina fleiri kyn en karlkyn og kvenkyn. Það eru til fleiri myndir af kynhneigðum; tvíkynhneigðir laðast almennt að sínu kyni og einhverju öðru kyni, fjölkynhneigðir laðast að mörgum kynjum en ekki endilega öllum, á meðan pankynhneigðir laðast að öllum kynjum (sem þýðir ekki að pankynhneigðir laðist að öllum einstaklingum).
Tvíkynhneigðir eru lauslátir og geta ekki skuldbundið sig í sambandi
Rangt! Hafir þú trúað þessu þá færum við þér stórfrétt! Tvíkynhneigðir geta orðið ástfangir. Það að vera tvíkynhneigð(ur) þýðir að þú hrífst bæði af þínu kyni og öðru en hefur ekkert með það að gera hvort einstaklingar haldist vel í sambandi og haldi tryggð við maka. Sambönd tvíkynhneigðra falla undir sömu “lögmál” og annarra.
Tvíkynhneigð er bara tímabundin leikaraskapur, þau geta vel valið að vera gagnkynhneigð.
Enn og aftur rangt! Þú velur þér ekki kynhneigð, þú finnur hana, hvort sem þú ert gagn-, sam- eða tvíkynhneigð/ur. Það er aftur á móti munur á því að vera gagnkynhneigður og verða ástfanginn af manneskju af öðru kyni og því að vera tvíkynhneigð(ur) og verða ástfangin af öðru kyni. Í því síðara þýðir það EKKI að einstaklingar séu hættir að laðast fólki af sama kyni. Sum sé, þú umturnast ekki í að verða gagnkynhneigð(ur) við það eitt að vera í sambandi við annað kyn.
Tvíkynhneigðar stelpur eru bara í leit að athygli
Sumir halda að stelpur segist bara vera tvíkynhneigðar til að geta farið í sleik við stelpur á djamminu til að ganga í augun á strákum. Rangt! Þessari mýtu er viðhaldið af amerískum grínmyndum en á sér litla stoð í raunveruleikanum. Tvíkynhneigðar stelpur eru tvíkynhneigðar því þær laðast að fleiri en einu kyni, ekki til að komast í skemmtistaðasleik (með fullri virðingu fyrir skemmtistaðasleikjum sem geta verið ágætis dægrastytting).
Tvíkynhneigðir eru í afneitun á samkynhneigð sinni
Rangt! Tvíkynhneigð er annað en að vera samkynhneigð(ur). Hinsvegar er mögulegt að kynhneigð geti breyst í gegnum tíðina, því er mögulegt að vera tvíkynheigður um stund, svo sam- eða gagnkynhneigð/ur. Þó eru flestir sem skilgreina sig sem tvíkynhneigða allt lífið og flokka því ekki kynhneigð sína eftir samböndum sínum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?