Hvað er skuldabréf?
Skuldabréf er í raun skjal sem staðfestir að lán hefur verið tekið og samþykki fyrir því að það verði greitt til baka að fullu. Þegar fólk tekur íbúðarlán eru t.d. gefin út skuldabréf og þar kemur fram hversu hátt lánið er, hversu langur afborgunartíminn er og hvaða vextir eru á láninu.
Hvað eru þá ríkisskuldabréf?
Þegar ríki gefa út skuldabréf eru þau í raun að fá lánaðan pening hjá þeim sem kaupa bréfin. Rétt eins og önnur skuldabréf bera þau vexti, hafa lánstíma og ákveðna lánsupphæð. Fjárfestar kaupa því ríkisskuldabréf fyrir einhverja ákveðna upphæð, þ.e. lána ríkinu pening, og ávaxta svo þessa upphæð yfir ákveðinn tíma. Kaup á ríkisskuldabréfum eru í raun sparnaðarleið, sem stendur einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum löndum til boða.
Hvernig virka skuldabréf?
Þegar skuldabréf er gefin út er tekið fram til hversu langs tíma er lánað, hver upphæðin er og hvaða vextir eru á því. Því næst kaupir fjárfestir skuldabréfið, þ.e. lánar þeim sem gefur bréfið út. Á ákveðnum tíma er svo skuldin greidd aftur með vöxtum og sá sem fjárfesti í bréfinu hagnast þannig á vöxtunum. Algengast er að lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjármálafyrirtæki og aðrir fjárfestar kaupi skuldabréf. Skuldabréf eru þannig leið fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að verða sér úti um lán og tækifæri fyrir fjárfesta til að ávaxta peningana sína.
Til eru nokkrar gerðir af skuldabréfum
Hér að neðan má sjá algengustu gerðir skuldabréfa og stutta lýsingu á þeim.
- Skuldabréf með vaxtamiðum eru algengustu skuldabréfin. Einkenni þeirra er að vextir eru greiddir reglulega á lánstímanum og við lok lánstímans er upphæðin greidd til baka að fullu.
- Víxlar eru þau skuldabréf sem eru með hvað stystan lánstíma, að jafnaði er hann minna en eitt ár. Víxlar eru yfirleitt óverðtryggðir. Þeir bera forvexti en það þýðir að vextirnir eru greiddir í upphafi lánstímans og dragast frá þeirri upphæð sem greidd er við lok lánsins.
- Eingreiðslubréf (kúlubréf eða kúlulán) eru langtíma skuldabréf þar sem engar greiðslur er greiddar af láninu fyrr en við lok lánstímans. Þá er upphæðin greidd til baka að fullu auk vaxta. Stundum er þó greitt af vöxtunum árlega.
- Skuldabréf með jöfnum afborgunum draga nafn sitt af því að lánsupphæð og vextir eru greiddir jafnt og þétt. Þar sem höfuðstóllinn, þ.e. upphæðin sem er í skuld, lækkar með hverri afborgun lækka vaxtagreiðslurnar samfara því.
- Jafngreiðslubréf eru svipuð skuldabréfum með jöfnum afborgunum að því leyti að greitt er af þeim jafnt og þétt. Munurinn er sá að í upphafi er mestmegnis verið að greiða af vöxtum en lítið greitt af höfuðstól. Þegar á lánstímann líður lækkar höfuðstóllinn jafnt og þétt og þar af leiðandi lækka vextirnir. Þegar sama krónutalan er greidd áfram fer því minna og minna í vaxtagreiðslur og meira í að greiða niður höfuðstól lánsins.
- Fasteignatryggð skuldabréf kallast þau skuldabréf þar sem fasteign er notuð sem trygging fyrir greiðslu bréfsins. Þetta kallast að gera veð, þ.e. að tryggja greiðslu bréfsins með annarri eign. Ef útgefandi skuldabréfsins greiðir ekki skuldina á réttum tíma getur sá sem keypti skuldabréfið eignað sér fasteignina. Húsið eða íbúðin er þá seld á uppboði til að unnt sé að greiða eiganda skuldabréfsins.
- Skuldabréf með breytilegum vöxtum eru eins og nafnið gefur til kynna bréf sem hafa ekki fasta ávöxtun. Þau taka oft mið af hlutum eins og stýrivöxtum eða meðalvöxtum Seðlabanka Íslands. Eigandi og útgefandi skuldabréfsins geta því ekki með fullu vitað hve miklar vaxtagreiðslurnar verða.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?