Það getur verið frekar vandræðalegur og leiðinlegur endir á annars góðu kvöldi að þurfa að láta sækja sig á djammið. Áttavitinn tók saman nokkur heilræði sem gætu fyrirbyggt slíkar uppákomur – og þess vegna önnur óhöpp!
Vatnsglasið, börnin góð
Margir hafa þá reglu að drekka alltaf eitt vatnsglas á milli drykkja. Áfengisdrykkja veldur töluverðu vökvatapi og með þessu móti má bæta aðeins á vökvabirgðirnar. Eins er þetta gott ráð til að sporna við óþarfa áfengisþambi og láta renna svolítið af sér áður en næsta glas er fyllt að nýju.
Borð eru hönnuð til að geyma hluti á
Með því að leggja drykkinn frá sér eftir hvern sopa, er ólíklegra að fólk fari að þamba. Þannig má hægja á drykkjunni, spara pening og vera aðeins betri við líkamann sinn.
Sumir hlutir fara bara ekki vel saman
Til að mynda er sjaldan boðið upp á nautasteik og rjómaís á sama tíma á veitingahúsum. Það er ágætt að hugsa um áfengi á svipaðan máta; halda sig við fáar tegundir því annars gæti maginn farið á hvolf og þá fara slæmir hlutir að gerast. Efnasamsetningar í áfengum drykkjum geta verið mjög ólíkar og því fleiri tegundir sem líkaminn þarf að vinna, því meira vandamál verður það fyrir hann.
Om-nom-nom
Það ætti að vera þumalputtaregla að borða alltaf vel fyrir djammið – og helst einu sinni síðar um kvöldið líka. Þannig er hægt að milda (ekki fyrirbyggja) timburmenn daginn eftir og forðast það að verða of drukkinn. Ef matur er í maganum vinnur líkaminn hægar úr áfenginu og með skynsamlegri neyslu ætti að vera hægt að koma í veg fyrir ofurölvun. Matur sem meltist hægt er besti kosturinn; pasta, hrísgrjón, brauð, dökkt kjöt og svo auðvitað matur sem inniheldur mikla fitu.
Öryggið á oddinn
Hérna eru þrjú mikilvæg ráð:
- Alltaf hafa glasið í sjónlínu, innan seilingar. Alltaf!
- Aldrei ganga einn um fáfarna staði að nóttu til.
- Alltaf taka bíl heim ef það stefnir í að maður þurfi að fara einn um fáfarna staði.
Aftur: öryggið á oddinn
Gangið um með smokk! Ef það fer að hitna í kolunum, þá veit maður aldrei hvað getur gerst. Maður veit heldur aldrei hvað hinn aðilinn getur verið með. Og svo er fátt pínlegra en heimsókn til ljósmóður með einhverjum sem maður veit ekki eftirnafnið á.
Að vera góður við lifrina
Áfengi er sérstaklega slæmt fyrir lifrastarfsemi fólks og því þarf að passa vel upp á þetta líffæri. Í apótekum er hægt að kaupa náttúrulyfið „Mjólkurþistil“ en það eflir mjög lifrastarfssemi. Fólki sem þykir óhóflega gaman að skemmta sér ætti að íhuga að fjárfesta í slíkum töflum. Sumir telja meira að segja að þær mildi þynnkuna daginn eftir.
Að lokum: þekkja sjálfan sig
Best af öllu er svo að þekkja sjálfan sig og sín mörk; vita hversu mikið er of mikið og hvenær sé kominn tími á að taka pásu frá drykkjunum. Fólk ætti að hafa það á bak við eyrað að stjórna því sjálft hversu mikið það drekkur en ekki láta aðra hafa áhrif á það.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?