Hvað er Frú Ragnheiður?

Frú Ragnheiður er verkefni sem rekið er af Rauða Krossinum og byggir á skaðaminnkandi nálgun á vandamálum þeirra sem þangað leita. Verkefni er starfrækt með því að bílnum Frú Ragnheiði er ekið á milli ákveðinna staða þar sem hann stoppar um stund á hverjum stað. Í bílnum er jaðarhópum, svo sem útigangsfólki og fíklum, boðið upp á almenna heilsuvernd og ráðgjöf, án þess að einstaklingurinn sé dæmdur fyrir lífstíl sinn.

Hvað er skaðaminnkun?

Skaðaminnkun gengur út á að aðstoða fólk frekar en að dæma það.  Einstaklingnum er mætt þar sem hann er, með það til hliðsjónar að draga úr og lágmarka mögulegan skaða sem hlotist getur af hegðun og líferni viðkomandi. Þannig er hægt að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, t.d. sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Með einföldum úrræðum er hægt að draga verulega úr skaðsemi lifnaðarhátta og draga úr þörf á dýrari úrræðum seinna meir í heilbrigðiskerfinu.

Hverjir geta sótt þjónustu Frú Ragnheiðar

Engum er neitað um þjónustu hjá Frú Ragnheiði en aðstoðin er fyrst og fremst fyrir þá hópa fólks sem eiga erfitt með að leita aðstoðar hjá almennri heilsugæslu.  Heimilislausir, útigangsfólk og fíklar eru á meðal skjólstæðinga Frú Ragnheiðar.

Hvað býður Frú Ragnheiður upp á?

Þjónustan sem veitt er aðhlynning og umbúnaður sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmæling og almenn heilsufarsráðgjöf. Þá geta einstaklingar sem nota sprautubúnað komið með notaðar nálar og sprautur og fengið hreinar nálar og sprautur í staðinn. Frú Ragnheiður afhendir endurgjaldslaust nálafötur og smærri nálabox til að geyma notuð sprautuáhöld í þar til því er fargað. Frú Ragnheiður tekur svo aftur við nálafötum og boxum til förgunar af fagaðilum.

Hvar get ég fundið Frú Ragnheiði?

Þjónustan er starfrækt fimm sinnum í viku frá klukkan 18 til 21.  Frú Ragnheiður stoppar meðal annars við gistiskýli, Konukot og við Hlemm. Einstaklingar geta líka hringt og fengið Frú Ragnheiði til að hitta sig annars staðar. Einnig er hægt að senda skilaboð á Facebook síðu þeirra sem er að finna hér að neðan. Síminn hjá Frú Ragnheiði er 7887-123.

Hverjir standa að verkefninu?

Rauði krossinn í Reykjavík sér um Frú Ragnheiði en verkefnið byggir á sjálfboðastarfi fjölbreytts hóps einstaklinga sem standa vaktir tvisvar í mánuði, þrjá tíma í senn. Stærsti einstaki hópur sjálfboðaliða eru hjúkrunarfræðingar og hjúkrunarfræðinemar. Þá hefur verkefnið á að skipa félagsráðgjöfum, vímuefnaráðgjöfum, sálfræðingum og öðrum vel menntuðum og þjálfuðum sjálfboðaliðum.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar