Hvað er fæðingarþunglyndi?

Eins og nafnið gefur til kynna er fæðingarþynglyndi, þunglyndi sem kemur fram hjá konu í kjölfar fæðingar barns. Fæðingarþunglyndi er nokkuð algengt, en talið er að rúmlega 10% kvenna þjáist af því í kjölfar fæðingar. Því miður þjást margar konur í þögn og án þess að leita sér hjálpar.

Af hverju fá konur fæðingarþunglyndi?

Stundum kemur fæðingarþunglyndi fram af þeim ástæðum að barnið er af einhverjum ástæðum óvelkomið eða að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Lang oftast á þunglyndið sér þó engar beinar skýringar. Stundum hefur verið talað um ákveðna áhættuþætti, t.d. skort á stuðningi frá maka, veikindi barns, erfiðleika heima fyrir og það að hafa gengið í gegnum þundlyndi einhvern tíma áður á lífsleiðinni. En eins og fyrr sagði þá á fæðingarþunglyndi sér oftast engar skýringar.

Hver eru einkenni fæðingarþunglyndis?

Einkenni fæðingarþunglyndis eru svipuð því þegar um er að ræða venjulegt þunglyndi. Sem dæmi um einkenni mætti nefna:

  • depurð;
  • kvíða og áhyggjur;
  • skapstyggð;
  • röskun á svefni, þreytu og þrekleysi;
  • vonleysi;
  • skerta matarlyst;
  • skort á sjálfstrausti og sjálfsáliti.

Hvað er til ráða?

Ómeðhöndlað þunglyndi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæði móður og barn. Sé það ekki meðhöndlað getur það leitt til langvarandi og endurtekins þunglyndis hjá móður. Þjáist konur af fæðingarþunglyndi er því best að þær leiti sér hjálpar sem fyrst. Ljósmæður, heimilislæknar og hjúkrunarfræðingar geta ráðlagt konum hvaða meðferð sé viðeigandi. Ýmist er látið reyna á viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða lyfjameðferð.

Greinargóðar upplýsingar um fæðingarþunglyndi má t.a.m. nálgast á Vísindavefnum og síðunni Persóna.is.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar