Hvernig er hormónahringurinn notaður?

Hormónahringurinn eða getnaðarvarnarhringurinn er lítill plasthringur sem settur er upp í leggöngin og hafður þar í 3 vikur samfleytt. Þá er hann fjarlægður í eina viku og blæðingar eiga sér stað. Að þeirri viku lokinni er nýr hringur settur upp í leggöngin.  Það þarf ekki að fara til læknis til að setja hringinn upp, þú getur bara gert það sjálf!

Hversu örugg getnaðarvörn er hormónahringurinn?

Mesta öryggi hormónahringsins er 99%.

Hvernig virkar hormónahringurinn?

Hormónahringurinn inniheldur bæði östrógen og prógesterón. Daglega losnar frá honum hormónaskammtur sem er aðeins ⅓ af þeim skammti sem er í pillunni. Hormónahringurinn virkar í raun á sama hátt og pillan, þannig að hann kemur í veg fyrir egglos. Slím í leghálsi verður einnig þykkara og legslímhúð breytist þannig að minni líkur verða á frjóvgun og þungun.

Hverjir eru helstu kostir hormónahringsins?

  • Hann er örugg getnaðarvörn.
  • Hringurinn er á sama stað í 3 vikur, svo getnaðarvörnin gleymist síður.
  • Ein stærð hentar öllum konum.
  • Flestar konur finna lítið sem ekkert fyrir hormónahringnum.
  • Auðvelt er að koma honum fyrir í leggöngum og finna hvort hann er rétt staðsettur.
  • Hann hefur litlar aukaverkanir.
  • Blæðingar minnka og verða reglulegar.
  • Túrverkir minnka.
  • Spennutilfinning í líkamanum fyrir blæðingar getur minnkað.
  • Hægt er að nota öpp sem hjálpa þér að muna hvenær þú átt að taka hringinn út og setja hann inn.

Hverjir eru helstu ókostir hormónahringsins?

  • Konur geta fundið fyrir ógleði og brjóstaspennu, en það er sjaldgæft.
  • Væg aukning á slím- og vökvamyndun (útferð) í leggöngum á sér stað.
  • Bólga og erting í leggöngum getur komið fyrir.
  • Hringurinn getur færst til og ýst út, en það er óvanalegt.
  • Sumar konur geta fundið fyrir óþægindum af völdum hringsins.

Nánari upplýsingar um hormónahringinn:

  • Konan kemur hormónahringnum sjálf fyrir í leggöngum í lok blæðinga og hefur hann þar í 21 dag.
  • Yfirleitt finnir fólk ekki fyrir hringnum við samfarir. Sumir makar finna aðeins fyrir hringnum en yfirleitt veldur það ekki óþægindum. Ef að hringurinn böggar þig eða makann við ástundun kynlífs má fjarlægja hringinn í allt að 3 klukkustundir ef hann veldur óþægindum.
  • Öryggið minnkar ef hormónahringurinn er fjarlægður í meira en 3 klukkustundir og þá ætti að nota aðrar getnaðarvarnir í a.m.k. 7 daga á eftir.
  • Konum sem reykja og hafa náð 35 ára aldri er síður ráðlagt að nota hormónahringinn.
  • Algengasta gerðin af getnaðarvarnahringjum á Íslandi er NuvaRing®.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar