Á að fá sér húðflúr?

Fólk hefur mjög ólíkar skoðanir á húðflúrum; sumir vilja láta þekja sig í bleki á meðan öðrum finnst þetta ljótt og asnalegt. Sé fólk orðið sjálfráða og hefur hug á að láta flúra sig er það þó bara gott og blessað ef rétt er að öllu staðið og vandað er til verks.

Að velja rétta flúrið

Tattú hafa mjög ólíkar merkingar í hugum fólks. Sumir horfa á þau sem persónulega tjáningu, aðrir líta á þau sem hálfgerða skrautmuni og enn aðrir sem einskonar minnisvarða. Hver sem skoðun fólks er á þessum málum er sennilega alltaf best að fólk hafi þetta að leiðarljósi: að setja ekki neitt á sig sem það sér mögulega eftir seinna. Eins þarf að vanda valið þegar kemur að húðflúrlistamanninum: Hann þarf að gæta fyllsta hreinlætis og kunna vel til verka svo útkoman verði sem best.

Er vont að fá sér tattú?

Í stuttu máli, já. Og á ákveðnum stöðum er það hreinlega mjög vont! Ef fólk ætlar að láta flúra sig verður það hreinlega að harka þetta af sér þar sem það þýðir ekkert að hætta í miðjum klíðum. Ef til vill getur fólk prófað að fá sér eitthvað lítið flúr áður, fyrst um sinn. Þannig getur það kannað hvort það þoli sársaukann og hafi úthald í stórt flúr.

Margir spyrja „Hvernig sársauki er þetta?“. Svarið við því er: eins og að láta stinga sig grunnt með nál mörghundruð sinnum á mínútu.

Hvað kostar að fá sér tattú?

Það getur verið mjög kostnaðarsamt að fá sér húðflúr. Algengt er að fagmenn rukki 10-15 þúsund krónur í start-gjald og svo 10-15 þúsund á tímann eftir það. Verðið er sjaldnast lægra – en oft hærra.

Mikilvægt er að fara einungis á stofur sem hafa tilskilin leyfi. Óhreinlæti í kringum tattú getur hreinlega reynst hættulegt.

Fólk má ekki aðeins hugsa út í kostnaðinn þegar það fær sér húðflúr. Ef fólk velur húðflúrara eftir verði – en ekki gæðum – þá er ólíklegt að það verði ánægt með tattúið.

Hvernig fer þetta fram?

Ef fólk hefur ákveðið að fá sér húðflúr þarf fyrst af öllu að finna færan húðflúrara sem er tilbúinn til þess að vinna verkið. Þetta er best að gera með því að heimsækja húðflúr-stofur, fá að skoða myndir og ræða við listamanninn um hugmyndina sem maður hefur. Ef allt lítur vel út, er hægt að bóka tíma. Venjulega vinnur listamaðurinn myndina í millitíðinni og sýnir manni hana þegar maður kemur. Því næst er hún teiknuð upp á réttan stað á líkamanum og fólk fær að skoða sig vel. Ef allt lítur enn þá vel út er ekkert annað að gera en að hefjast handa. Ef fólk er að láta á sig stórar myndir eru þær oft unnar í nokkrum lotum: algengt er að flúrið sé gert í 3-5 tíma í senn þar til það er tilbúið.

Af hverju ætti einhver að sjá eftir því að fá sér húðflúr?

Það er nú bara þannig að sum húðflúr standast ekki tímans tönn. Því ætti að huga að eftirfarandi:

  • Tískubylgjur – Í gegnum árin hafa verið tískubylgjur í húðflúri eins og öðrum geirum. Fólk hefur látið flúra á sig „tribal-tattoo“, kínversk tákn og langar textarunur (s.s. úr lögum eða bókum). Eftir ákveðinn tíma detta þessi tattú hreinlega úr tísku og fólki fer að þykja þau hallærisleg og ljót. Betra er að hafa tattúið persónulegt, vel gert – og umfram allt – gæta þess að það hafi einhverja raunverulega merkingu fyrir mann sjálfan!
  • Nöfn – Þessari reglu ætti aldrei að víkja frá nema um sé að ræða móður manns. Nýju kærustunni á ekki eftir að standa á sama þegar hún sér nafnið á fyrrverandi skrifað á upphandlegginn. Helmingur hjónabanda endar með skilnaði svo ekki gera ráð fyrir að vera með sömu manneskjunni alla tíð.
  • Viltu að allir sjái húðflúrið? Ef það á að flúra á sig á stað sem sést mjög vel , t.d. háls og andlit, þá á að hugsa sig vel og vandlega um og taka vel upplýsta ákvörðun þegar kemur að því að ákveða hvort að flúrið verði að raunveruleika.

Umhirða húðflúra

Eftir að tattú-listamaðurinn hefur lokið vinnu sinni ætti hann að gefa fólki ítarlegar leiðbeiningar um umhirðu húðflúrsins. Þetta felur oftast í sér að halda því hreinu, þvo með mildri sápu, halda því frá raka, bera krem á flúrið (oftast mæla húðflúrarar á Íslandi með kreminu Helosan), verja það fyrir öllu áreiti og kroppa ekki í hrúðrið sem myndast. Fyrstu klukkustundirnar eftir flúrun er tattúið yfirleitt haft í plasti á meðan það grær – oft 6 til 12 tíma. Eftir það er flúrið þvegið varlega með mildri sápu og allur vessi fjarlægður.

Best er að hugsa um ný húðflúr eins og sár – því í raun eru tattú ekkert annað en opin sár. Allt óhreinlæti í kringum það getur valdið sýkingu. Eftir að það hættir að blæða er betra að „leyfa því að anda“ heldur en að loka það inni í umbúðum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar