Guðmundur Einar skrifar um reynslu sína af hugleiðslu og fjallar um aðgengileg tól til að hjálpa þeim sem áhuga hafa á að byrja að hugleiða.

Ég vildi að ég hefði vitað fyrr hversu auðvelt það er að byrja að hugleiða. Hugleiðsla getur hjálpað þér við að njóta betur augnabliksins, losna við óttan við álit annarra og sigrast á depurð.

Hugleiðsla er ekki forréttindi andlegra gúrúa. Hún getur hjálpað okkur öllum, hún er einföld, praktísk og það er ótrúlega auðvelt að byrja.

Til eru ýmsar hugleiðsluaðferðir, þeirra algengust er sennilega núvitund, sem felst í því að upplifa augnablikið til fullnustu, hvort sem þú einbeitir þér að andardrættinum, skynjunum líkamans, hljóðunum í kringum þig eða öðru. Mjög algengt er líka að nota svokallaða möntru: að endurtaka ákveðinn (andlegan) frasa í sífellu, þar til engar aðrar hugsanir trufla. Aðferðirnar eru þó endalausar, til að mynda horfir rapparinn Kendrick Lamar á sjálfan sig í spegli í tíu mínútur á hverjum morgni. Í leit að raunveruleikanum í sjálfum sér (e. the realness within).

Staðalímyndir um hugleiðslu láta hana oft virðast flókna og óaðgengilega. Það er ekki endilega rétt. Við þurfum ekki að fara til Indlands eða Tíbet í klaustur. Við þurfum ekki að hitta neinn í appelsínugulum kufli. Við þurfum ekki að fara á námskeið. Nútíminn hefur gefið okkur einstaklega aðgengilegar og þægilegar leiðir til að koma hugleiðslu í vana. Hér eru nokkrir möguleikar – að sjálfsögðu allir ókeypis.

Headspace er með frábært byrjendanámskeið. Tíu mínútur á dag í tíu daga. Þú setur bara á þig headphone og ýtir á play. That‘s it.
https://www.headspace.com/

UCLA Health býður upp á hugleiðslu með leiðsögn (e. guided meditation) sem hægt er að ná í á itunes.
https://www.uclahealth.org/programs/marc/free-guided-meditations/guided-meditations

Youtube býður upp á ógrynni af slíkri hugleiðslu. Hér er linkur að einn góðri.
https://www.youtube.com/watch?v=tCpG2VkOjW8

Til að byrja með er gott að styðjast við leiðbeiningar, en með tímanum getur maður sleppt þeim og gert þetta sjálfur. Sömuleiðis ef maður hefur ekki viljastyrk til að hugleiða þann daginn, þá einfaldar það málið að þurfa bara að setja á sig heyrnartól og ýta á play.

Það mikilvægasta til að gera hugleiðslu að lífstíl er að stunda hana reglulega. Það er betra að hugleiða fimm mínútur á hverjum degi en heila klukkustund einu sinni í viku. Setji maður markið ekki of hátt er auðveldara að koma hugleiðslunni í vana.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar