Hvernig gef ég líffæri?

Til eru tvær gerðir af líffæragjöf, annars vegar við andlát og hins vegar þegar líffæri eru tekin úr lifandi manneskju sem getur haldið áfram lífi sínu án þeirra.  Lifandi manneskja getur gefið nýra eða hluta lifrar og lifað áfram heilbrigðu lífi.  Við andlát er einnig stundum hægt að nýta líffæri úr manneskju, það er að segja hjarta, lungu, lifur, nýru, bris, þarma og hornhimnu.

Er alltaf hægt að nýta líffæri við andlát?

Nei, heiladauði er forsenda líffæragjafar.  Algengustu orsakir heiladauða eru blæðingar eða æðastífla í heila eða höfuðáverki sem veldur óafturkræfum skemmdum á heilavef.  Þegar blóðflæði til heilans stöðvast alveg kallast ástandið heiladauði og manneskjan er í raun látin.  Með vélum er hægt að halda öndun og hjartslætti gangandi, þannig að blóðið heldur áfram að streyma í líffærin, sem þá er hægt að nýta til ígræðslu.  Þó að hjartað slái ennþá með hjálp véla er hægt að staðfesta raunverulegt andlát (heiladauða) með rannsóknum.

Er alveg öruggt að heiladauður sjúklingur vakni ekki aftur?

Já.  Framkvæmdar eru ítarlegar rannsóknir á taugakerfinu og heilanum.  Heiladauði verður sjaldnast strax, heldur eftir einhverja daga svo hægt sé að staðfesta heiladauða.  Þá er annað hvort tekin æðamyndataka af heilanum og athugað hvort að blóðflæði sé til heilans, eða skoðun á starfsemi heilans og heilatauga sem gerð er tvisvar, með tveggja klukkutíma millibili af tveimur mismunandi læknum.  Öndun og hjartslætti sjúklingsins er þá haldið gangandi til að líffærin skemmist ekki.

Fyrir hverja eru líffærin?

Sjúklingar með ýmsa sjúkdóma þurfa ný líffæri.  Þegar sjúklingar eru lengi veikir geta líffærin farið að bila og þá þarf ný líffæri.  Sjúklingar geta verið með alvarlega sjúkdóma á hjarta, lifur, lungum eða nýrum, þannig að eina varanlega lausnin er að fá nýtt líffæri í stað hins veika.  Á hverju ári þarfnast 25-30 sjúklingar ígræðslu, en mikill skortur er á líffæragjöfum.  Ekki er hægt að nýta líffæri nema í litlum hluta dauðsfalla, en hver líffæragjafi getur bjargað lífi nokkurra einstaklinga.  Því fleiri sem skrá sig sem líffæragjafa, því fleiri lífum er hægt að bjarga!

Hvernig skrái ég mig sem líffæragjafa?

Þú getur skráð þig á netinu í gagnagrunn sem Embætti landlæknis heldur um.  Þú skráir þig með því að nota svokallaðan Íslykil, sem er persónulegt lykilorð þitt að ýmsum vefsíðum.  Ef þú átt ekki Íslykil nú þegar, getur þú sótt um hann á island.is og þá færðu lykilorðið sent í heimabankann þinn.  Í gagnagrunn um líffæragjöf getur þú skráð hvort þú viljir gefa líffæri eða ekki og hvaða líffæri þú vilt ekki gefa þó þú gefir hin.  Það er gott að vera búinn að skrá sig á líffæragjafaskrá, því að það getur verið mjög erfitt fyrir ættingja að taka slíka ákvörðun strax eftir andlát manneskju.   Það er gott fyrir ættingjana að vita þá ósk hins látna og minnka álagið á sorgartímum.

Heimildir:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar