Margar konur upplifa sársauka við samfarir

Ástæðurnar geta bæði verið líkamlegar og andlegar. Kynlíf er til þess að njóta og á engin að þurfa að upplifa sársauka við samfarir. Því er um að gera að finna rót vandans og lausnina á honum.

Sársauki vegna andlegra þátta

Oft er talið að tilfinningar á borð við reiði, skömm og hræðslu geti valdið því að ákveðnir vöðvar stífna upp og þá er vont að sofa hjá. Ef konan er ekki fullkomlega viljug til að stunda kynlíf nýtur hún þess ekki á nokkurn hátt og upplifir því líka sársauka. Ef sársaukinn er af sálrænum toga er mikilvægt að vinna bug á honum. Oft á hann rætur sínar að rekja til reynslu fyrr á ævinni, sjálfsmyndar eða samfélagsviðhorfa. Stundum er nóg að æfa slökun og tileinka sér önnur viðhorf til kynlífs. Einnig getur verið gagnlegt að leita til sálfræðings, eða einhvers sem maður treystir og finnst gott að tala við. Mikilvægt er að fólk sem stundar kynlíf saman eigi auðvelt með að ræða málin sín á milli. Til að vinna bug á erfiðum tilfinningum tengdum kynlífi getur sjálfsfróun komið að góðu gagni. Sumum konum hefur líka reynst vel að lesa rómantískar bækur.

Líkamlegir þættir geta haft mikið að segja

Sýkingar eins og blöðrubólga og sveppasýking, leg- og blöðrusig, gyllinæð, kláði og hormónaskortur getur allt valdið miklum sársauka við kynlíf. Einnig geta komið upp ýmsar bólgur vegna ofnæmisviðbragða, t.d. vegna ofnæmis fyrir efni í smokkum. Ef konur upplifa sársauka við kynlíf vegna líkamlegra þátta er nauðsynlegt að leita til kvensjúkdómalæknis.

Á Áttavitanum má nálgast upplýsingar um sveppasýkingar og meðferð við þeim.

Þrengsli við leggangaop getur valdið miklum sársauka við samfarir

Þá er mikilvægast af öllu að konan æsist vel kynferðislega áður en samfarir hefjast. Við það blotna leggöngin og verða tilbúin fyrir samfarirnar. Einnig getur verið gott að nota sleipiefni, þótt þau komi aldrei í staðinn fyrir kynferðislegan æsing. Kynlífsstellingar geta einnig verið misþægilegar fyrir fólk og því er nauðsynlegt að prófa sig áfram í þeim efnum og finna hvað hentar best.

Að láta rekkjunaut sinn vita strax

Ef konur upplifa sársauka við kynlíf er best að gefa það strax til kynna og hætta leiknum undir eins.

Kynlíf er ekki kynlíf nema öll njóta!

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar