Til að koma í veg fyrir innbrot er gott að láta líta út fyrir að einhver sé heima

Þetta er hægt að gera með því að setja tímastilla á ljós sem eru á sýnilegum stað, þannig loga ákveðnir lampar eða loftljós í nokkra tíma á kvöldin. Eins er hægt að fá nágranna til að leggja bíl í stæði sem tilheyrir íbúðinni eða húsinu.

Póstkassinn getur komið þjófum á sporið

Troðfullur póstkassi, eða blaðahrúga undir bréfalúgunni, þýðir venjulega að fólk sé ekki heima. Því er best að fá einhvern til að fjarlægja póstinn reglulega. Eins er ekki ráðlegt að auglýsa fjarveru íbúa á póstkassa, s.s. með merkingum um að senda eigi póst eitthvert annað.

Nágrannavarsla felur í sér ákveðið öryggi

Ráðlegt er að fá góðan nágranna til að kíkja reglulega í heimsókn. Ekki eingöngu til að tæma pósthólfið og vökva plönturnar heldur til að athuga hvort allt sé ekki í góðu lagi. Ef það snjóar er kannski hægt að fá þann aðila til að moka frá dyrunum og ef fríið er langt gæti verið sniðugt að biðja hann um að slá úfinn grasflötinn. Einnig getur fólk beðið nágrannann um að henda annað slagið rusli í tunnuna – tóm tunna þýðir nefnilega að enginn sé heima!

Passa að læsa hurðum vel og loka gluggum

Mikilvægt er að gengið sé vel frá öllum hurðum og allir gluggar sé kyrfilega lokaðir. Bæði gerir þetta innbrotsþjófum erfiðara fyrir að komast inn – og vekur frekar athygli á þeim ef þeir reyna að brjótast inn.

Mikil verðmæti eru best geymd í bankahólfum

Eins eru sniðugt að koma verðmætum hlutum eins og skartgripum, dýrum málverkum og safngripum fyrir á öruggum stað þar sem fylgst er með þeim. Hlutir sem þjófar gætu komið í verð en eru eigendum ómetanlegir eru kannski best geymdir hjá ættingja eða vini.

Einnig er sniðugt að taka verðmæti úr sjónlínu

Innbrotsþjófar kynna sér aðstæður vel áður en þeir brjótast inn. Ef engin veruleg verðmæti eins og tölvur eða flatskjáir eru sjáanlegir í gegnum glugga eru minni líkur á að brotist sé inn. Þessum munum má t.a.m. koma fyrir í stórum skápum eða á bakvið hurðir. En á sama tíma er gott að muna besta ráðið: að láta líta út fyrir að einhver sé heima. Hálftóm íbúð þýðir að enginn er heima!

Útiljós fæla frá þjófa í skammdeginu

Útiljós á veröndinni, á svölunum eða í tröppunum geta gert gæfumun. Því er ráðlegt að leyfa þeim að loga þegar farið er í frí.

Aukalykilinn á góðan stað, takk fyrir!

Fátt er meira svekkjandi en að gefa innbrotsþjófi aðgang að aukalyklinum. Góður felustaður er því lykilatriði – og jafnvel spurning um að taka lykilinn bara inn þegar fólk heldur í frí. Ef maður geymir aukalykil einhvers staðar utandyra skal líka gæta þess vandlega að enginn sjái mann nálgast hann. Þjófar fylgjast gjarnan með íbúum og húsnæði þeirra í ákveðinn tíma áður en þeir láta til skara skríða.

Það er hægt að taka heimasímann með í ferðalagið

Sumir þjófar bregða á það ráð að hringja í heimasíma til að sjá hvort einhver sé heima. Á ferðalögum er hægt að láta áframsenda símtöl sem berast í hann í gemsann. Hægt er að gera þetta með einu símtali í þjónustuver símafyrirtækjanna.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar