Oft heyrum við hluti í kringum okkur og treystum því að séu sannir, jafnvel göngum við það langt að við lifum eftir þeim sem heilögum sannleika. Oft er þó svo við komið að um helbert bull er að ræða. Þegar þú heyrir einhvern tala um eitthvað sem „sagt er“ eða eitthvað sem „vinur vinar míns sagði“ skaltu efast. Allir hafa heyrt sögur um eitthvað ótrúlegt eða óhuggulegt, nýjasta hollustuæðið, töfralausnir í megrun, húsráð eða fjáröflunarráð sem eru of góð til að vera sönn o.s.fr. Varist að gleypa við svoleiðis fullyrðingum gagnrýnilaust.

Áttavitinn hefur því tekið saman 8 einföld dæmi um „mýtur“ sem vonandi verða til þess að þú hugsir þig tvisvar um áður en þú gleypir við næstu flökkusögu sem þú heyrir.

1. Mýta –  Sagt er: Þú færð kvef ef þú ferð með blautt hár út í kulda.

Satt er: Það er ekkert sem bendir til þess að líkur á kvefi aukist við það. Vírusar (eins og kvef) eru algengari yfir vetrartímann vegna þess að þá heldur fólk sig meira innandyra, og þannig  berast sýklar mun auðveldar milli manna. EN það gerir það ekki að verkum að þú sért líklegri til að fá kvef við að fara blaut(ur) út í kulda, heldur mun það gerast að þér verður kalt, sem mögulega veikir varnir líkamans. Það verður ekki endilega til þess að þú fáir kvef.

2. Mýta – Sagt er: Kínamúrinn er eina bygging sem sést úr geimnum

Kína múrúnn úr geimSatt er: Í fyrsta lagi sjást mjög margar byggingar úr geimnum. Í öðru lagi sést Kínamúrinn ekki úr geimnum. Til vinstri er mynd af Kínamúrnum, tekin úr alþjóðlegu geimstöðinni, sem er rétt fyrir utan gufuhvolfið: Þið sjáið fullt af fjöllum og fljótum, en sjáið þið múrinn? Ekki við heldur. (Mynd birt með leyfi frá NASA)

3. Mýta – Sagt er: Leðurblökur eru blindar.

Satt er: Allar 1.100 leðurblökutegundirnar hafa sjón og það nokkuð góða sjón. Kannski ekki eins góða og mörg önnur nætur-rándýr, en samt góða. Sumar tegundir nota að vísu heyrnina meira en sjónina, en staðreyndin er þó sú að sjónin hjá þeim er í fínu lagi.

4. Mýta – Sagt er: Einstein var lélegur í skóla og féll í stærðfræði.

Satt er: Einstein var afburða námsmaður og var færður upp um bekk. Hann féll aldrei í stærðfræði og hafði fullkomin tök á diffrun, tegrun og kennilegri eðlisfræði áður en hann náði 15 ára aldri. Þar hafið þið það.

5. Mýta – Sagt er: Hitler var grænmetisæta og bindindismaður.

Satt er: Þrátt fyrir að Hitler hafi verið meira fyrir grænmeti en kjöt þótti honum Þýskar pylsur og skinka hreinasta hnossgæti og kokkurinn hans, Dione Lucas, sagði að uppáhaldið hans væri fylltur dúfu-ungi. Með hverju skolaði hann þessu niður? Bjór eða vatnsblönduðu víni.

6. Mýta – Sagt er: Sykur gerir börn ofvirk

Satt er: Tólf tvíblindar rannsóknir sýna að alls engin tenging er milli hegðunar barna og sykurneyslu. Þó kom það í ljós að foreldrar halda að börninn þeirra séu virkari þegar þau héldu að börnum þeirra hafi verið gefin einn sykraður drykkur. Það sem meira er, þá sýndi rannsókn Vreeman og Caron að börn sem talin eru „veik fyrir sykri“ haga sér ekkert öðruvísi eftir sykurneyslu en önnur börn. Rannsóknirnar voru gerðar með sykruðu sælgæti, súkkulaði og nattúrulegum sykruðum vörum.

7. Mýta – Sagt er: Við notum aðeins 10% heilans

Satt er: Við notum næstum 100% heilsans, meira að segja í svefni. Það teldist mjög alvarleg heilasköddun ef maður notaði 10% af heilanum. Með því að fara í segulómun má jafnvel sjá virkni í öllum hlutum manns eigins heila. Heilinn er mjög orku- og plássfrekur svo það væri mjög óhentugt og kostnaðarsamt fyrir líkamann að nota bara 10% af honum.

8. mýta – Sagt er: allt ofantalið eru „mýtur“

Satt er: Ekkert af ofantöldu eru mýtur. Það er misskilningur að nota orðið mýta í þessu samhengi og réttara væri að tala um flökkusögur eða rangfærslur. Mýta er dregið af gríska orðinu myþos (μυθος), sem þýðir goðsaga. Goðsögur lýsa atburðum, sem gerðust í fortíðinni, en voru þó með einhverjum hætti utan mannlegs tíma, því að þær voru sífellt að endurtaka sig. Þær segja frá goðum, yfirnáttúru, skrímslum og göldrum og hafa á einhverjum tímapunkti í einhverju samfélagi verið heilagar.
 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar