Hvað eru félagsvísindi?

Félagsvísindi eru flokkur vísindagreina sem fást í grunninn við samfélag manna. Þetta eru greinar á borð við félagsfræði, stjórnmálafræði, sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði, lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði.

Hvar eru félagsvísindi kennd?

  • Háskóli Íslands býður upp á fjöldann allan af námsleiðum í félagsvísindum. Lista yfir nám og deildir má finna á heimasíðu félagsvísindasviðs.
  • Háskólinn á Akureyri býður upp á nám í félagsvísindum; fjölmiðlafræði, sálfræði, lögfræði og viðskiptafræði. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðum hug- og félagsvísindasviðs og viðskiptasviðs.
  • Háskólinn á Bifröst býður upp á nám í lögfræði, viðskiptafræði og sameiginlegt nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Nánari upplýsingar má finna á vef skólans.
  • Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í lögfræði, viðskiptafræði og sálfræði. Frekari upplýsingar má nálgast í Kennsluskrá HR.

Við hvað starfar fólk með menntun af félagsvísindasviði?

Atvinnulífsfræði

Atvinnulífsfræði er hagnýtt nám ef stefnt er á störf í starfsmannahaldi eða í millistjórnun hjá fyrirtækjum. Námið er gott sem undirbúningur fyrir framhaldsnám á sviði stjórnunar, vinnumarkaðsmála og nýsköpunar.

Bókasafns- og upplýsingafræði

Bókasafns- og upplýsingafræði veitir þekkingu á fjölmörgum þáttum sem snúa að miðlun og skráningu upplýsinga. Námið er gagnlegur undirbúningur fyrir störf í í skjalastjórnun, stjórnun og rekstri.

Félagsfræði

Félagsfræðingar starfa í opinberri stjórnsýslu, félagsþjónustu, fjölmiðlum, tómstunda- menningar- og íþróttastarfsemi, fræðslu, fjármála- og tryggingastarfsemi, rannsóknum og ráðgjöf af ýmsu tagi. Þeir vinna bæði hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum.

Fjölmiðlafræði

Fjölmiðlafræðingar vinna við fjölmiðlarannsóknir, skipulag þeirra, eignarhald, forræði og ábyrgð. Einnig fjalla þeir um notkun þeirra og áhrif á samfélagið.

Mannfræði

Mannfræðingar starfa meðal annars við fjölmiðlun, kennslu, þróunarsamvinnu, friðargæslu og erfðarannsóknir. Margir þeirra starfa einnig á minjasöfnum og í ýmsu er lítur að málefnum innflytjenda.

Safnafræði

Safnafræðingar vinna ýmis störf á söfnum og sýningum, við varðveislu verðmæta, rannsóknir, kennslu og miðlun menningararfsins. Einnig við verkefnastjórnun og störf í menningartengdri ferðaþjónustu.

Þjóðfræði

Þjóðfræðingar starfa á mjög ólíkum vettvangi. Margir þeirra vinna sem fræðimenn eða við kennslu, en þeir eru einnig landverðir, leiðsögumenn, minjaverðir og vinna við söfn og sýningar. Margir þeirra starfa einnig við skapandi greinar, til dæmis við kvikmynda- og dagskrárgerð.

Fötlunarfræði

Þeir sem læra fötlunarfræði vinna við margvísleg störf að málefnum fatlaðra.

Blaða- og fréttamennska

Námið veitir góðan grunn fyrir þá sem vilja starfa innan fjölmiðla, sem blaða- eða fréttamenn, eða við dagskrárgerð í útvarpi, sjónvarpi og á vefmiðlum.

Hnattræn tengsl, fólksflutningar og fjölmenningarfræði

Námið hentar fólki sem hyggur á störf á alþjóðavettvangi jafnt sem innanlands. Námið er nátengt mannfræðinni.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar aðstoða einstaklinga við að læra að þekkja sjálfan sig og velja úr ólíkum valmöguleikum hvað þá langar að gera, og hvar hæfileikar þeirra liggja. Þeir starfa með fólki á grunnskólaaldri og uppúr, bæði innan menntakerfisins og í atvinnulífinu.

Hagfræði

Hagfræðingar vinna margvísleg störf í þjóðfélaginu. Margir þeirra starfa innan fjármálastofnana, í almennum fyrirtækjarekstri, eða við kennslu og blaðamennsku.

Félagsráðgjöf

MA nám ofan á grunnnám veitir starfsréttindi við félagsráðgjöf. Félagsráðgjafar starfa í ólíkum greinum innan félagsvísinda, við velferðarþjónustu og ráðgjöf.

Lögfræði

Lögfræðingar og fólk með grunnmenntun í lögfræði vinnur við fjölbreytt störf. Þeir sem ljúka framhaldsnámi geta stefnt á störf á borð við lögfræðingastörf, lögmannsstörf, dómara- eða stjórnsýslustörf. Lögfræðiþekking er góð undirstaða fyrir störf í ólíkum greinum.

Stjórnmálafræði

Stjórnmálafræðingar starfa við ólík störf í samfélaginu. Meðal þess má nefna störf í fréttamennsku og fjölmiðlun, upplýsingastörf, störf hjá ráðgjafarfyrirtækjum, í alþjóðasamskiptum og hjá alþjóðastofnunum. Einnig starfa þeir í utanríkisþjónustu, ráðuneytum og stjórnsýslu bæði hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum.

Kynjafræði

Fólk með menntun á sviði jafnréttis- og kynjafræða starfar við kennslu og ýmis fræðslustörf, fjölmiðlun og upplýsingastörf, verkefnastjórnun og starfsmannastjórnun. Margir starfa einnig hjá hagsmunasamtökum og frjálsum félagasamtökum og sem jafnréttisráðgjafar.

Viðskiptafræði

Viðskiptafræðingar starfa margir í fjármálageiranum, en þeir vinna einnig að rannsóknum á starfsemi fyrirtækja. Meðal framhaldsnáms á viðskiptasviði er; fjármál fyrirtækja, mannauðsstjórnun, markaðsfræði, alþjóðaviðskipti, reikningsskil og endurskoðun, skattaréttur, stjórnun og stefnumótun. Einnig er boðið upp á MBA nám sem er starfsmiðað meistaranám fyrir stjórnendur fyrirtækja.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar