Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að verkfræði.

Hvað gerir verkfræðingur?

Verkfræði er mjög fjölbreytt fræðigrein og getur hentað vel fyrir þá sem eru óákveðnir með framtíðina. Verkfræði er skipt niður í undirgreinar en grunnur hverrar er svipaður þó þær fáist við ólíka hluti. Algengt er að nemendur velji sér nýja námsleið í framhaldsnámi ef þeir hafa fundið sér nýtt áhugasvið. Hér eru nokkrar undirgreinar verkfræði en listi er langt frá því að vera tæmandi:

  • Byggingaverkfræðingar sérhæfa sig í byggingu, viðhaldi og hönnun mannvirkja.
  • Fjármálaverkfræðingar læra hvernig hanna megi fjármálatengdar vörur, lágmarka áhættur á markaði og hámarka tækifæri fjármálafyrirtækja.
  • Hátækniverkfræðingar hanna, þróa og framleiða vélbúnað í flóknum tækjum og sérhæfa sig oft í því sem er nýlegt á sviði vísinda.
  • Heilbrigðisverkfræðingar þróa tækni og aðferðir við meðferð og greiningu sjúkdóma.
  • Hugbúnaðarverkfræðingar þróa, framleiða, reka og viðhalda tölvukerfum og forritum.
  • Iðnaðarverkfræðingar hanna, greina og skoða uppbyggingu framleiðslu- og þjónustufyrirtækja og umbætur í starfi þeirra.
  • Rafmagnsverkfræðingar læra um rafmagnskerfi (almennt og í mannvirkjum), hönnun tækjabúnaðar og fjarskipti.
  • Vélaverkfræðingar hanna, þróa og greina vélbúnað og hitakerfi meðal annars.

Hvernig veit ég hvort verkfræði sé eitthvað fyrir mig?

Verkfræði er vissulega ekki allra en ef þú hefur mikinn áhuga á raungreinum eins og stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði þá gæti hún vel hentað þér. Einnig ef þú hefur mikinn áhuga á tækni og hvernig nota megi hana á hagkvæmari hátt. Eins og áður sagði þá er greinin tiltölulega opin því gæti hún hentað vel fyrir þá sem eru óákveðnir um framtíð sína. Til að kynnast greininni betur gæti verið áhugavert að skoða hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema eða reyna að komast í fyrirtækjaheimsókn hjá verkfræðistofu, stóriðjufyrirtæki eða orkufyrirtæki.

Hvar lærir maður að verða verkfræðingur?

Á Íslandi er verkfræði kenndi við Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur. Erlendis er verkfræði kennd við marga háskóla og algengt að nemendur leiti erlendis í framhaldsnám. Verkfræðingur er lögverndað starfsheiti og þarf að sækja um hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðneytinu eða hjá Verkfræðingarfélaginu til að fá staðfestingu á að hafa lokið viðeigandi námi (M.Sc. gráða í verkfræði er nauðsynleg undirstaða til að mega kalla sig verkfræðing).

Hvar mun ég svo starfa sem verkfræðingur?

Eftir námið eru verkfræðingar með góðan grunn í raungreinum og forritun. Þetta leiðir til þess að þeir hafa mikla möguleika á atvinnumarkaðnum og starfa meðal annars hjá fjármálafyrirtækjum, framleiðslufyrirtækjum, stóriðju, orkufyrirtækjum, flutningsfyrirtækjum, verkfræðistofum, hugbúnaðarfyrirtækjum og fleira.

Heimildir:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar