Hvað er skotvopnaleyfi?
Eins og nafnið gefur til kynna veitir skotvopnaleyfi fólki rétt til að eiga og meðhöndla haglabyssur og riffla. Það eitt og sér dugir þó ekki til að fara á veiðar, því einnig verður fólk að verða sér úti um veiðikort.
Hvernig fær fólk skotvopnaleyfi?
Til þess að öðlast skopvopnaleyfi þarf fólk að sitja námskeið á vegum Umhverfisstofnunar. Námskeiðin eru yfirleitt kennd 1-2 sinnum í mánuði. Þau kosta 27.000 krónur. Til að geta farið á veiðar þarf fólk þó einnig að sitja veiðikortanámskeið.
Hversu löng eru skotvopnanámskeiðin?
Skotvopnanámskeiðin taka þrjá daga. Þar af fara tveir dagar, eða átta tímar, í bóklega kennslu. Þessi bóklegi hluti námskeiðsins er yfirleitt kenndur á kvöldin. Auk þess þurfa nemendur að taka nokkra tíma í verklegum hluta, en sá hluti er iðulega kenndur um helgar.
Hverjir geta fengið skotvopnaleyfi?
Ákveðin skilyrði eru fyrir því að fólk geti fengið skotvopnaleyfi.
- Umsækjendur þurfa að vera 20 ára eða eldri.
- Þeir þurfa að hafa hreint sakavottorð.
- Þeir þurfa að standast skotvopnaleyfisnámskeiðið.
- Þeir þurfa að fá vottorð frá lækni.
Hvað kostar að fá skotvopnaleyfi?
Skotvopnaleyfisnámskeiðið eitt og sér kostar 27.000 krónur. Veiðikortsnámskeiðið kostar 14.900 krónur. Við þessa upphæð bætist svo kaup á kennslubók, byssum og árgjöld fyrir veiðikort, hafi fólk hug á að verða sér úti um slíkt. Einnig skal hafa í huga að kosnaður við kennslubækurnar er um 10.000 kr.
Hvað eru veiðikortsnámskeið?
Veiðikortsnámskeiðin eru ætluð þeim sem hyggjast stunda veiðar á Íslandi. Til að stunda fugla-, refa-, minnka- og hreindýraveiðar þarf fólk að verða sér úti um veiðikort. Veiðikortsnámskeiðið tekur sex tíma, eða eina kvöldstund, og kostar það 14.900 krónur.
Ítarlegar upplýsingar um skotvopnaleyfi- og veiðikortsnámskeið má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?