Hvar eru almenningsgarðar í Reykjavík?

Fjölmargir almenningsgarðar eru staðsettir víðsvegar um höfuðborgarsvæðið af öllum stærðum og gerðum. Áttavitinn hefur tekið saman lista fyrir þá helstu, ásamt stuttri lýsingu og upplýsingum um aðstöðu. Hann má nálgast hér að neðan.

Í Miðbænum eru eftirfarandi garðar . . . .

  • Austurvöllur: Austurvöllur er sennilega mest sótti almenningsgarður borgarinnar á sólskinsdögum. Garðurinn er aðallega notaður til bjórdrykkju og hentar kannski illa til leikja eða íþrótta. Þetta er skjólsæll staður þar sem gott er að virða fyrir sér mannlífið.
  • Alþingisgarðurinn: Alþingisgarðurinn er staðsettur fyrir aftan Alþingishúsið og er ágætis áningarstaður ef Austurvöllur er of þéttsetinn. Þetta er lítill garður og hentar því illa til leikja eða íþrótta. Betra er að koma þangað fyrri part dags, þar sem skyggja tekur seinnipartinn.
  • Arnarhóll: Margir þekkja Arnarhól sem „heimili“ rónanna Boga og Örvars í Spaugstofunni. Nú eru það hinsvegar ekki eingöngu rónar sem stunda garðinn. Þarna eru leiktæki, bekkir, grasbalar og sólin skín þar langt fram á kvöld á sumrin. Helsti ókosturinn er vindurinn sem stendur stundum inn af hafinu og það er staðreynd að þetta er fyrst og fremst hóll en ekki garður.
  • Einarsgarður við Laufásveg: Einarsgarður stendur við enda Laufásvegar, rétt hjá Landspítalanum. Þetta er lítill, notalegur garður með grasabala og bekk. Hann hentar heldur illa fyrir íþróttir eða leiki, en tilvalið er að fara þangað í lautarferð.
  • Frakkland við Frakkastíg: Frakkland er staðsett efst á Frakkastíg, rétt hjá Hallgrímskirkju. Þetta er afar lítill garður sem hentar illa til leikja eða íþrótta. Þarna eru bekkir og útilistaverk.
  • Garðurinn við Landakotskirkju: Þessi garður er lítið notaður og rúmgóður; hentar því vel fyrir boltaleiki, frisbí, eða annað slíkt í litlum hópum. Helsti ókosturinn er sá að stundum getur verið svolítið vindasamt á hæðinni. Sólin skín þar mest allan daginn.
  • Hallargarðurinn: Hallargarðurinn stendur við Kvennaskólann við Fríkirkjuveg á móti Tjörninni. Garðurinn er ágætlega rúmgóður og því má auðveldlega fara þar í íþróttir og leiki í litlum hópum. Sólin skín þar allan daginn. Helsti ókosturinn við garðinn er sá að stundum á vindurinn til að blása frá Tjörninni.
  • Hjartagarðurinn, Laugavegi: Hjartagarðurinn stendur á milli Laugavegs og Hverfisgötu, fyrir aftan kaffihúsið Hemma & Valda. Þarna eru bæði bekkir og grasbalar. Sólin skín þar fram eftir kvöldi og gott skjól er á milli húsanna. Á sumrin eru stundum uppákomur í portinu; markaðir, tónleikar og listviðburðir.
  • Hljómskálagarðurinn: Hljómaskólagarðurinn stendur við Tjörnina. Garðurinn er stór og því auðvelt að fara í hverskyns leiki og íþróttir í stórum hópum. Þótt undarlegt sé er hann fremur lítið notaður. Sólin skín þar allan liðlangan daginn. Helsti ókosturinn er að þarna getur verið vindasamt eins og í öðrum görðum sem standa nálægt Tjörninni. Tilvalið er að taka ferðagrillið með í Hljómskálagarðinn.
  • Hólavallakirkjugarður: Sumum hryllir við kirkjugörðum, en Hólavallagarður er þó sennilega fallegasti kirkjugarður á Höfuðborgarsvæðinu. Þangað má auðveldlega fara í lautarferð og yfirleitt er skjólsælt í garðinum. Mæður okkar bönnuðu okkur að ganga á leiðum þegar við vorum ung, og sennilega er ágætt að fylgja þeirri reglu.
  • Mæðragarðurinn, Lækjargötu: Mæðragarðurinn stendur á milli Miðbæjarskólans og MR. Af einhverjum ástæðum vita því fáir af honum og því er hann lítið notaður. Garðurinn er lítill, en skjólsæll og sólin skín þar fram á kvöld. Þarna eru bekkir og grasbalar.
  • Styttugarðurinn við Einarssafn: Á Skólavörðuholti stendur Listasafn Einars Jónssonar og garðurinn við safnið er opin öllum. Þetta er fallegur garður, prýddur höggmyndum. Hentar vel til lautaferða, en illa til leikja eða íþrótta. Þarna er skjólsælt, en trén í garðinum eiga það til að þvælast fyrir sólinni.
  • Grótta úti á Seltjarnarnesi er ekki beint almenningsgarður, en mikið notað útivistarsvæði. Þar fara margir um skokkandi og hjólandi, eða gangandi til að viðra hundinn, sjálfan sig og makann. Gróttan í sólsetri, með ilmandi saltblandaðri hafgolunni, er áreiðanlega með rómantískari stöðum innan höfuðborgarsvæðisins.

Í Norðurmýri, Hlíðum, Laugardal og Fossvogi . . .

  • Fossvogurinn: Í Fossvoginum má bauka ýmislegt: fara í göngutúr, lautaferð, taka grillið með, spila leiki og íþróttir eða baða sig í sólinni. Þarna er oft skjólsælt og sólin skín fram á kvöld. Bæði er hægt að komast að Fossvoginum Reykjavíkur- og Kópavogsmegin. Í Fossvoginum er skógrækt, gönguleiðir og bekkir en lítið um aðra aðstöðu.
  • Grundargerðisgarður: Garðurinn er staðsettur við Grundargerði í smáíbúðahverfinu. Þarna er grasbali og bekkir. Garðurinn er tiltölulega lítill og hentar því illa fyrir íþróttir eða leiki í stærri hópum. Þangað má vel fara í lautarferðir eða taka grillið með. Sólin skín þar mest allan daginn og gott skjól er á milli húsanna.
  • Klambratún: Á Klambratrúni eru bekkir, grasbalar, körfuboltavellir, frisbí-golf og fótboltavöllur.  Þetta er stór og rúmgóður garður, og hentar því vel til leikja, íþrótta og útiveru. Helsti ókosturinn er gæsaskítur á stöku stað. Á Klambratúni stendur listasafnið Kjarvalsstaðir.
  • Laugardalurinn / Grasagarðurinn: Útivistarsvæðið í Laugardal ættu flestir Reykvíkingar að þekkja, enda eitt stærsta græna svæði borgarinnar. Þarna er hægt að stunda ýmis konar íþróttir, leiki, fara í lautarferðir eða grilla. Í Laugardalnum er auðvitað líka Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Grasagarðurinn og Laugardalslaugin. Þetta er því kjörinn áningarstaður fyrir vini, pör og fjölskyldur.
  • Nauthólsvík: Ylströndin í Nauthólsvík er vinsæll viðkomustaður hjá mörgum á sólríkum sumardögum. Sjórinn er hitaður upp og búið er að ferja inn hvítan sand; ætli tilgangurinn sé ekki að láta fólki líða sem það sé á erlendri sólarströnd. Þarna eru einnig litlar laugar og aðstaða til strand-blaks.
  • Öskjuhlíð: Öskjuhlíðin er annað stórt, grænt svæði sem flestir þekkja nú. Þarna er tilvalið að ganga um, grilla og fara í lautarferðir. Þar sem svæðið er skógi vaxið, hentar það illa til leikja og íþrótta. Þar má finna gott skjól og sólbaðsaðstöðu ef vel viðrar.

Árbær, Breiðholt og Grafarvogur . . .

  • Elliðaárdalur: Elliðaárdalurinn í Árbænum er eitt stærsta, græna svæði Reykjavíkur. Um dalinn liggja gönguleiðir og er hann því vinsæll staður fyrir gönguferðir og skokk. Þarna má einnig finna græna reiti þar sem hægt er að stunda íþróttir og leiki, fara í lautaferð og grilla eða baða sig í sólinni.
  • Garðurinn við Andapollinn, Hólmaseli í Breiðholti: Garðurinn við Hólmasel í Breiðholti stendur við litla andartjörn. Þangað er tilvalið að fara í lautarferð eða með ferðagrillið. Garðurinn hentar illa til leikja og íþrótta.
  • Gufunes, Grafarvogi: Gufunes er stórt útivistarsvæði í Grafarvogi. Þar er góð aðstaða fyrir ýmsar íþróttir, s.s. strandblak, frisbí-golf, klifur, hjólabretti og boltaleiki. Eins er grillaðstaða á svæðinu. Gufunesið er stórt landsvæði og hentar því til hverskonar útiveru. Helsti ókosturinn er vindurinn sem stendur stundum inn af hafi.

Hafnarfjörður…

  • Hellisgerði er helsti skrúðgarður Hafnarfjarðar. Hann afmarkast af Reykjavíkurvegi, Hellisgötu og Skúlaskeiði, og má sumsé finna rétt fyrir ofan A. Hansen húsið. Hönnun garðsins tók mið af náttúrulegu landslagi svæðisins og garðurinn er því mishæðóttur, með hraunklettum og grasbölum í bland, en lítið er af stórum sléttum flötum. Garðurinn hentar því illa til boltaleikja, en þeim mun betur fyrir ratleiki, feluleiki eða álíka leiki. Í garðinum má m.a. finna tjörn með gosbrunni, kaffihús, útisvið, leiktæki og helli.
  • Víðistaðatún er stærðarinnar grænt svæði milli norðurbæjar og vesturbæjar Hafnarfjarðar, og afmarkast að mestu af Hraunbrún og Hjallabraut. Víðistaðatún samanstendur af nokkrum víðfeðmum grænum blettum og er því tilvalið til leikja svo sem fótbolta og frisbí og stærri samkomna, enda var Víkingahátíðin haldin á Víðistaðatúni áður en hún fluttist á Fjörukránna. Á Víðistaðatúni er einnig tennisvöllur, tjörn og nokkur listaverk sem hafa þjónað hlutverki klifurleiktækja Hafnfirðinga og annarra gesta um áraraðir.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar