Hvað er NFT?

NFT stendur fyrir „Non-fungible token“. Orðið „fungible“ er orð sem er notað í hagfræðinni yfir „Eitthvað sem hægt er að skipta út fyrir annan nákvæmlega eins hlut“ eða með öðrum orðum eitthvað sem er útskiptanlegt. Þannig ef að eitthvað er „Non-fungible“, þá er ekki hægt að skipta því út fyrir annan nákvæmlega eins hlut. Hluturinn er þar með óútskiptanlegur. Til að skilja þetta betur skulum við setja upp dæmi.

Munurinn á útskiptanlegu og óútskiptanlegu

Þú ferð inn á vefverslun og ætlar að kaupa þér skópar, eftir að hafa valið þér týpu seturðu hana í körfuna og gengur frá greiðslunni. Þú pælir líklegast ekki í því hvaða skópar þú færð nákvæmlega af þeim þúsundum sem fyrirtækið framleiðir af þeirri týpu. Svo lengi sem þú færð skópar sem lítur út eins og skóparið sem að þú valdir þá pælirðu ekki frekar í því.
Skóparið er nefnilega útskiptanlegt (e. fungible).

Þegar þú hefur átt skóparið sem þú keyptir í nokkra mánuði, eru líkur á því að þú hefur tengst sérstökum böndum við það. Þú hefur eignast margar minningar á meðan þú klæddist þessu skópari, kannski kynntistu makanum þínum eða náðir einhverjum merkilegum áfanga. Hvað sem það var, þá getur þú aldrei farið inn á vefverslunina og keypt aftur nákvæmlega þetta skópar. Þú getur keypt alveg eins skópar, en minningarnar og tilfinningagildið er bundið við upprunalega skóparið sem gerir það óútskiptanlegt. Þetta er “NF” hlutinn af NFT.

En fyrir hvað stendur T-ið?

„T-ið“ í NFT stendur fyrir “Token” eða tákn” á íslensku. Þann hluta af nafninu má líta á sem vottorð fyrir eignarhaldi á því sem þú varst að kaupa.

Hvernig virkar NFT?

Verðgildi hefðbundna listaverka felst í því að það er aðeins til eitt eintak af hverju þeirra. Þetta býr til skort sem hækkar verðið á þeim. Stafræn listaverk er hins vegar hægt að margfalda eins oft og fólk vill, sem gerir það ómögulegt að búa til skort á þeim. Hugmyndin með NFT er að merkja stafræn listaverk og gögn með táknum (tokens) sem virka eins og stafrænt vottorð um eignarhald á verkinu sem síðan er hægt að kaupa og selja. Þessi vottorð búa þar með til verðgildi þar sem það er aðeins til eitt slíkt vottorð fyrir hvert verk.

Alveg eins og með rafmyntir, þá er færslusagan sem heldur utan um hver á hvaða vottorð geymd á bálkakeðju (blockchain). Bálkakeðjan kemur í veg fyrir að hægt sé að falsa gögn um eignarhald á ákveðnum verkum. NFT geta einnig innihaldið snjall samninga sem geta gefið listamanninum t.d. hluta af öllum framtíðarsölum á verkinu hans.

Hvað kemur í veg fyrir að fólk afriti stafrænu listaverkin?

Hér er það sem gerir NFT skrítið. Það er ekki neitt sem getur komið í veg fyrir að einhver afriti sama stafræna listaverk og þú keyptir fyrir NFT. Í mörgum tilfellum heldur listamaðurinn jafnvel enn þá höfundaréttinum, sem þýðir að þeir geta áfram framleitt og selt afrit af listaverkinu. Það eina sem NFT kaupandinn á, er „tákn“ (token) sem sannar að þeir eigi „upprunalega“ verkið. 

Hversu mikils virði er NFT?

Tæknilega séð getur hver sem er búið til tákn fyrir verkin sín og selt þau sem NFT, en helsti áhuginn á tækninni hefur komið frá fréttum um NFT verk sem hafa verið að seljast á fleiri milljónir dollara. Þann 19. febrúar 2021 seldist hreyfimynd af „Nyan Cat“ sem var vinsælt “meme“ árið 2011 fyrir meira en 500.000 dollara. Að auki seldi Jack Dorsey, stofnandi Twitter, fyrsta „tweet-ið“ sitt á 2.5 milljónir dollara sem NFT.

Hver er framtíð NFT?

NFT er spennandi tækni með nýja möguleika þegar kemur að greiðslum og viðskiptum. Þá sérstaklega fyrir listamenn sem þurfa að vernda listaverk sín á tímum netvæðingar. Þessir listamenn geta séð til þess að þeir fái greiddar prósentur í hvert sinn sem verkið þeirra er selt á netinu sem var áður ómögulegt að gera.

Tískubransinn sér einnig tækifæri í þessari nýju tækni en Nike sótti nýlega um einkaleyfi á NFT tækni fyrir skóna sína sem á að auðvelda viðskiptavinum þeirra að staðfesta hvort skórnir þeirra séu ekta eða ekki. Þessi tækni er einnig hugsuð til þess að koma í veg fyrir ólöglega framleiðslu á fölsuðum skópörum.
Það er hinsvegar margt annað sem bendir til þess að við séum í miðri „búbblu“ núna sem er við það að springa, þannig ef þú hefur áhuga á að fjárfesta í NFT listaverkum, mælum við með að lesa þér vel til um efnið áður en þú eyðir öllu sparifénu þínu í að kaupa „memes“.

Heimildir:

Volpicelli, W. G. U. K. (2021, February 27). NFTs Boom as Collectors Shell Out to ‘Own’ Digital Art. Wired. https://www.wired.com/story/nfts-boom-collectors-shell-out-crypto/

Beedham, M. (2019, December 10). Nike now holds patent for blockchain-based sneakers called ‘CryptoKicks.’ TNW | Hardfork. https://thenextweb.com/news/nike-blockchain-sneakers-cryptokick-patent

BBC News. (2021, March 6). Jack Dorsey: Bids reach $2.5m for Twitter co-founder’s first post. https://www.bbc.com/news/world-us-canada-56307153

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar