Hindúismi er mjög forn trú og í henni blandast saman þúsundir goðsagna, heimspekikenninga og siða, sem hafa orðið til á Indlandi undanfarin 3000 ár. Hindúismi er algyðistrú, og hindúar trúa því að alheimssálin Brahman gegnsýri allt og alla. Brahman er eilíf, óbreytanleg og ópersónuleg orka, sem sameinar allt sem lifir í einni sál. Búddismi, Síkismi og Jaínismi þróuðust út frá Hindúsima. Segja má að Hindúismi sé frekar samheiti yfir fjölmargar indverskar trúarskoðanir heldur en skipulögð trúarbrögð. Því er lítið hægt að alhæfa um hindúa, en hér eru þó nokkur almenn atriði.

Hindúismi í hnotskurn

 • Nafn: Hindúismi eða Sanatana Dharma, fylgjendur eru Hindúar
 • Guð: Algyðistrú með fjölgyðisívafi. Meðal helstu guða eru Brahma, Shiva og Vishnu
 • Algengust: á Indlandi.
 • Bænarhús: Musteri
 • Heilagasta hátíð: Diwali
 • Helgidagur: enginn
 • Helgirit: Veda-ritin og fleiri
 • Fylgjendur í heiminum: 1 milljarður
 • Fylgjendur á íslandi: fáir, óvíst
 • Fjöldi íslenskra félaga: engin
Hindúar trúa því að allar sálir séu fastar í hringrás endurfæðingar, Samsara. Sál getur endurfæðst sem manneskja, dýr eða guð og tilgangur lífsins er að komast út úr hringrás endurfæðingar og sameinast Brahman. Það heitir að öðlast moksha. Til eru fjórar leiðir að æðra tilverustigi eða moksha, og nefnast þær yoga:
 • Yoga ástar og tilbeiðslu. Að lifa í stöðugri tilbeiðslu á guðina og elska heiminn allan.
 • Yoga góðra verka. Allir hafa skyldum að gegna (Dharma) og með því að sinna þessum skyldum og vinna góðverk hlýtur maður gott Karma, sem hefur áhrif á næsta líf.
 • Yoga þekkingarinnar. Að helga lífi sínu lærdómi um helgiritin og læra um guð og réttan lífstíl hjá lærimeistara sem nefnist Gúru.
 • Yoga hugleiðslunnar. Það að leggja stund á hugleiðslu og líkamlegar æfingar af fullkomnun og ögun, til þess að sameina líkama og huga. Jóga-íþróttin, sem er vinsæl á vesturlöndum, byggir á þessu Yoga.
Ýmis fyrirbæri eru heilög í hindúatrú. Þar má nefna kýr, Ganges-fljót, Himalaya-fjöll og reðurtákn. Tilak og Bindi eru tákn sem hindúar mála á enni sín til þess að hleypa orku inn og út úr sál sinni. Hljóðið aúm er álitið hljóð Brahmans og var fyrsta hljóðið sem heyrðist í heiminum. Hindúar segja aúm þegar þeir biðja og hugleiða. Mikið skraut og gleði einkenna flókið helgihald þeirra, sem samanstendur af  hugleiðslum, möntrum, blómakrönsum, söngvum, dönsum, skurðgoðum, skrautmyndum og pílagrímsferðum. 
Í hindúasið fæðist fólk inn í eina af fjórum stéttum eftir því hve gott karma það hafði í fyrra lífi. Hver stétt nýtur mismikillar virðingar og réttinda, þar sem Brahmínarnir, hinir heilögu, tróna á toppnum, en þjónar og verkamenn á botninum. Þar að auki er til fólk sem fæðist stéttlaust, og er dæmt til fátæktar og götulífs. Stéttaskiptingin er þó á undanhaldi þar sem hún þykir ekki samræmast almennum mannréttindum.
Hindúar trúa einnig á fjölmarga guði, sem nefnast Devas og eru í raun mismunandi birtingarmyndir Brahmans. Þannig er hindúsimi bæði algyðistrú og fjölgyðistrú.

Hverjir eru helstu guðir hindúa?

Mikilvægustu Devas eru Brahma, Vishnu og Shiva, sem mynda hina guðlegu þrenningu ásamt eiginkonum sínum.
 • Brahma er skapari heimsins. Hann er rauður, fjórhentur og með þrjú höfuð. Hann samdi Vedurnar (sjá neðar), bjó til stéttakerfið og öll náttúrulögmálin. Athugið að rugla ekki Brahma saman við Brahman.
 • Saraswati er eiginkona Brahma. Hún er gyðja þekkingar og lista og skapaði Sanskrít, sem er helgimál Indverja og formóðir Evrópskra tungumála. Hún er fjórhent og fögur.
 • Vishnu er ábyrgur fyrir vernd og viðhaldi heimsins. Hann er dáðastur guða og hefur tíu sinnum tekið á sig holdlega mynd á jörðinni, en þá fer hann í gervi dýrs eða dauðlegs manns og kallast það Avatar. Einn þessara Avatara var Búdda. Vishnu er blár og fjórhentur.
 • Lakshmi er eiginkona Vishnu. Hún er fjórhent og er gyðja auðs, fegurðar og hreinleika.
 • Shiva er dansandi blár guð sem eyðir og endurbyggir heiminn stöðugt. Hann hreinsar burt hið ófullkomna.
 • Parvati er eiginkona shiva. Hún er móðurgyðjan, og gyðja tímans, dauðans, stríða og hinnar kvenlegu frumorku. Hún og faðir hennar eru drottnarar fjallanna.
Auk þessarra guða má nefna hetjuguðinn Krishna, fílaguðinn Ganesh, sólarguðinn Surya og apaguðinn Hanuman. Þúsundir annarra guða tilheyra hindúsima

Hvar er hindúismi algengastur?

Hindúismi er uppruninn á Indlandi, en þar og í Nepal er hann nær alls ráðandi. Einnig eru fjölmargir Hindúar í norðanverðri Suður-Ameríku og eyjum Indlandshafs.
Kort af útbreiðslu trúarbragða
Mynd fengin af: https://uni.hi.is/brb42/

Hvert er helgirit hindúa?

Hindúar eiga hundruði helgirita. Þeirra mikilvægust eru Veda-ritin, sem hindúar telja samin af Brahma fyrir 3000 árum. Þau lýsa helgisiðum, heimspekilegum hugleiðingum og goðsögnum. Sömuleiðis eru Upanishad og Itihatas-ritin mikilvæg, en þau geyma siðaboðskap, sögur af hetjum og konungum og meira að segja lengsta ljóð í heimi!

Hverjar eru helstu trúarhátíðir hindúa?

Trúarhátíðir hindúa fylgja indverska tungldagatalinu og eru því á mismunandi tíma á árinu. Hindúahátíðir eru mörghundruð talsins og eru mjög breytilegar milli landsvæða. Sú sem flestir hindúar halda upp á er líklega ljósahátíðin Diwali. Hún er haldin til heiðurs gyðjunni Lakshmi, og þá fagna hindúar sigri sköpunar, ljóss og visku. Þá eru haldnar veislur og gefnar gjafir. Hátíðin markar upphaf nýs árs og er yfirleitt í nóvember.

Hverjir eru helstu söfnuðir hindúa?

Hindúum má skipta hundruði hópa. Fjórir eru stærstir:
 • Vaishnavi eru þeir sem dýrka Vishnu ofar öllu.
 • Shaivi eru þeir sem telja Shiva æðstan guðanna.
 • Shakti felst í því að tilbiðja hinn heilaga skapandi kvenleika.
 • Smarta felst í því að líta á guðina alla sem eina og órjúfanlega heild.

Trúfélög hindúa á Íslandi:

Ekkert opinbert trúfélag hindúa er skráð á Íslandi, enda búa hér fáir hindúar. Þó eru til nokkrir óopinberir hópar sem byggja að einhverju leiti á hindúismanum, s.s. Sri Chimnoy miðstöðin, Ananda Marga, Íhugunarfélagið og ýmsir jógahópar.
Myndin er fengin að láni hjá Russ Bowling og breytt af Áttavitanum með Creative commons leyfi.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar