Ferðalög auðga lífið. Maður lærir ýmislegt um sjálfan sig og samfélagið, upplifir hluti sem ekki væri hægt að upplifa á Íslandi og eignast nýja vini. Það er þó dýrt að ferðast um heiminn, sér í lagi fyrir þá sem búa á afskekktri eyju í miðju Atlantshafi, þar sem eini raunhæfi ferðamátinn er að fljúga á milli landa. Hér eru nokkrar tillögur að því hvernig þú getur gert ferðalagið ódýrara en ella.
Ódýrari flug
Dýrasti útgjaldaliðurinn við ferðalög frá Íslandi eru oftar en ekki flugið sjálft. Það er þó stundum hægt að spara sér einhverjar upphæðir með því að vera útsjónarsamur í flugkaupum. Hér á Áttavitanum er að finna grein sem tileinkuð er flugmiðaleit.
Flugleitarvélar
Flugleitarvélar á borð við dohop.is leita að flugförum á vefjum ótal flugfélaga og gefa þér upp ódýrasta flugið, kannski með millilendingarsamsetningu sem þér hefði ekki dottið í hug að leita að. Í mörgum tilfellum er hægt að kaupa miðann beint af vefnum, sem sparar þér talsverða fyrirhöfn. ATHUGIÐ: sum flugfélög koma óheiðarlega fram og fylgjast með því hvaða einstaklingur hefur verið að skoða flug. Flug sem þú skoðar á mánudagsmorgni getur verið orðið talsvert dýrara á mánudagskvöld, en bara á þinni tölvu! Þess vegna er best að nota hulduglugga (e. incognito window) til þess að kaupa flugið þegar þú ert búinn að skoða það. Auðvelt er að opna hulduglugga í Chrome með því að ýta á ctrl + shift + N.
Stundum geta ódýrustu flugförin leitt til óheppilegra millilendinga með tilheyrandi bið og flugvallarflakki. Á Áttavitanum er að finna grein með upplýsingum um hvernig hægt sé að láta fara vel um sig á vellinum.
Ódýrari flugvellir
Sumir flugvellir innheimta minni gjöld en aðrir og laða þar af leiðandi að sér flugfélög með ódýrari fargjöld. Það getur verið hentugt að fljúga á þessa ódýru flugvelli, en hafðu samt í huga að skoða kostnað við að komast til og frá flugvellinum. Flugvöllurinn Frankfurt Hahn er til að mynda mikið ódýrari en aðalflugvöllur Frankfurtar, en hins vegar er þar nánast engin þjónusta, margra tíma bið eftir næstu rútu frá vellinum og rútuferðin talsvert löng. Afskekktari flugvellur þýðir lengri rútu-/lestarferð á áfangastað og kostnaður við ferðina getur verið talsverður.
Það er líka þjóðráð að skoða flugvelli sem eru í námunda við áfangastaðinn. Til að mynda er yfirleitt miklu ódýrara að fljúga til Bratislava heldur en Vínarborgar, en Bratislavaflugvöllur er þó bara klukkustund frá Vín. Þannig er hægt að spara sér peninginn og skoða fleiri staði ef viljinn er fyrir hendi!
Ódýrir ferðamöguleikar á jafnsléttu
Það eru ýmsar leiðir til að ferðast um Evrópu. Mesta frelsið fellst í að leigja sér bíl, en það er líka hægt að taka rútur og lestir, báta og fleira. Hér er fjallað um alódýrustu leiðirnar fyrir þá nískustu!
Að húkka sér
Ódýrasti fararskjótinn er tvímælalaust að húkka sér. Það er þó ekki ódýrt ef að tíminn er peningar, -en ef þú hefur nægan tíma þá er þetta mjög skemmtilegur og ævintýralegur ferðamáti. Þó að sögusagnir af puttaferðalöngum séu oft neikvæðar, þá er þetta tiltölulega öruggt ef að þú sýnir varúð.
- Ekki húkka einn á ferð, -best er að vera tvö og tvö saman, annað hvort stelpa og strákur eða tvær stelpur. Tveir strákar er ekki hentug samstæða, því að þá er því miður ólíklegra að fá far.
- Verið alltaf með síma við höndina til að kalla á hjálp og ekki fara upp í bifreið sem ykkur líst ekki á, eða eftir sólarlag.
- Verið með gott vegakort með vegnúmerum og lista yfir landa- og bæjarkóða á bílnúmeraplötum, sem er gott til að finna þá sem eru á sömu leið og þú.
- Það hjálpar mikið að kunna mörg tungumál, bæði til að skilja vel hvað bílstjórinn segir og koma í veg fyrir misskilning. Ef þú kannt hrafl í þýsku, einhverju latnesku máli og einhverju slavnesku máli ertu nokkuð vel sett(ur).
- Ekki húkka á hraðbrautinni sjálfri, sem er ólöglegt og stórhættulegt, heldur á bensínstöðvum og mögulega við umferðarmannvirki eins og umferðarslaufur.
- Vertu með pappa og penna til að skrifa áfangastaði. Oft getur verið heppilegra að skrifa áfangastað sem er tiltölulega nálægt, frekar en lokaáfangastað sem er mörgþúsund kílómetra í burtu.
- Ef þú hefur staðið lengi á sama stað gætirðu viljað labba á næsta hentuga stað. Þú getur líka talað við fólk á bensínstöðvum og athugað hvort þau geti gefið þér far.
- Það er hægt að gera ráð fyrir því að komast um það bil 400 km á dag, en það er auðvitað mjög breytilegt og fer eftir því hversu lengi þú ert tilbúin(n) að húkka, hversu snemma þú byrjar og einfaldlega hversu heppin(n) þú ert þann daginn. Greinarhöfundur hefur átt slæma daga með aðeins 250 km vegalengd og góða (en mjög langa) daga þar sem að heildarvegalengdin var 750 km.
- Gerðu heimavinnuna þína. Hitchwiki býr yfir miklum upplýsingum varðandi puttaferðalög um heiminn.
Ef þú hyggur á puttaferðalög, lestu þér þá til um húkktip Áttavitans.
Samferðavefir
Stærsti bíladeilingarvefurinn í Evrópu er hinn þýski Mitfahrgelegenheit. Þar setja ökumenn inn upplýsingar um ferðina sem þeir eru að fara og þú getur oft fengið mjög ódýrt far. Þetta er áreiðanlegra og öruggara en að húkka, þar sem ökumaðurinn setur upp notendavegg þar sem fólk getur gefið honum meðmæli. Algengt er að ökumenn rukki um €5 fyrir hverja 100 km. Stundum geturðu þurft að púsla saman förum á lengri ferðum, en þá er bara spurning um að rýna í kortið og reyna að finna samsett för sem henta vel. Þetta er ekki aðeins hræódýrt, heldur mjög skemmtileg leið til að kynnast fólki.
Hrjóttu ódýrt
Hótel eru meðal stærstu útgjaldaliðanna þegar maður ferðast og því er ekki úr vegi að reyna að finna ódýrari möguleika.
Notaðu tengslanetið
Langódýrasti kosturinn er að koma sér upp góðu tengslaneti vina í Evrópu. Það er auðveldast með því að vera duglegur að sækja alþjóðlega viðburði, ráðstefnur, þing og mót. Ef þú ert alþjóðlega virk(ur) getur vel verið að þú eigir kunningja í þeirri borg sem þú þarft að eyða nótt í og það getur vel gengið að auglýsa einfaldlega eftir gistingu á facebook. Ef þú ætlar að nota óútreiknanlega fararskjóta eins og puttaferðalag getur verið gott að vera búin(n) að merkja inn á kort þær borgir þar sem þú veist að þú átt gistingu vísa og miða svo á þær sérstaklega (ef þú ert á langferðalagi sem tekur meira en einn dag).
Sófasörf
Vissir þú að esperantó-sambandið var með fyrstu couch-surfing þjónustuna? Allir sem töluðu esperantó gátu gist hjá hinum sem töluðu esperantó. En allavega. Þú talar sennilega ekki esperantó. Þá er nú gott að nú er til couchsurfing.com! Á couchsurfing getur þú fengið ókeypis gistingu hjá fólki um allan heim en síðan er einnig vettvangur fyrir alls kyns félagslíf. Couchsurferar hittast vikulega í öllum stærstu borgunum og svo eru líka margir sem ekki bjóða upp á gistingu, en eru alveg til í að fá sér kaffibolla með þér og sína þér borgina. Couchsurfing er góð leið til að kynnast fólki og fá um leið ókeypis gistingu.
Airbnb
Á Airbnb getur þú leigt heimili fólks í lengri eða styttri tíma, oft á minni pening heldur en hótelherbergi. Það getur líka verið indælla að vera í heimilislegri íbúð heldur en karakterlausu hótelherbergi. Þú getur leigt allt frá litlum herbergjum upp í kastala, en 600 kastalar eru skráðir á Airbnb og þar er einnig að finna húsbáta, frumskógartjöld og fleira.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?