Aldrei verið neitt upptekinn af eigin líkama

120

Halló, ég er 18 ára strákur. Ég hef aldrei verið neitt upptekinn af eigin líkama, ég er frekar grannur, ég stunda enga líkamsrækt þannig að ég er ekki með neina áberandi vöðva eða six pack. Þetta hefur aldrei truflað mig neitt og mér hefur eiginlega alltaf verið sama þótt ég líti ekki vel út. En núna í fyrsta skipti í lífinu er ég orðin ástfanginn af stelpu, við erum ekkert byrjuð saman eða neitt en mig langar að byrja að kynnast henni og „reyna“ við hana. En málið er að núna er ég farin að hafa mikklar áhyggjur af eigin líkamsástandi, mér finnst ég ekki nógu flottur, ég eitthvern veginn tel mig trú um að hún eigi ekki eftir að laðast að mér þar sem ég er svo grannur, það er ekkert „karlmannslegt“ við mig en hún aftur á móti er fullkominn. Ég reyni oftast að fela þetta bara, vera í langerma peysum svo fólk sjái ekki t.d. grönnu handleggina þar sem menn eru oftast þykkir. Ég veit ekki hvað ég eigi að gera, gefast bara upp, ég meina laðast stelpur af strákum sem eru ekki massaði, eru mjög grannir og hafa almennt ekki karlmanslegt útlit?

Þú skalt reyna að stoppa þessar hugsanir þínar strax.  Þetta eru neikvæðar niðurrifs hugsanir sem eiga enga stoð í raunveruleikanum.   Mörgum stelpum finnst grannir strákar flottastir, öðrum finnst massaðir og aðrar vilja hávaxna og svo framvegis.  Það er svo misjafnt hvað hverjum og einum finnst heillandi.  Lang mikilvægast er þó alltaf manneskjan sjálf, að líða vel með einhverjum er svo miklu mikilvægara en hvernig líkama viðkomandi er með.  Þú segir að hún sé fullkomin en raunverulega þá er hún það ekki, hún er það í þínum augum kannski akkúrat núna en ekki endilega í augum annara.  Það skiptir þig greinilega miklu máli hvað henni finnst um þig og þess vegna brýst fram þetta óöryggi og koma fram hugsanir um að þú sért ekki nógu góður, flottur og fyndinn eins og þú ert.  En málið er að þú ert það, þú ert fínn eins og þú ert. – Og þú vilt kærustu sem vill þig af því að þú ert þú, ekki bara vegna þess að þú sért með stóra vöðva, er það ekki?  Ef þig sjálfum langar að verða massaðri þá getur þú farið að vinna í því, en ekki gera það nema ef það er fyrir sjálfan þig.  Samband sem byggir á því að einstaklingur fari að breyta sér fyrir einhvern annan mun aldrei endast.  Það er best að vera maður sjálfur frá upphafi.

Þú ert að búa til í huganum hvaða álit hún mun hafa á þér áður en þú veist nokkuð um það í raunveruleikanum, kannski finnst henni bara ekkert flott að vera of massaður, líklega er hún bara ekkert mikið að spá í því.  Þú skalt heldur leggja áherslu á að vera skemmtilegur, skilningsríkur og traustur vinur heldur en að spá í handleggina.  Það er miklu meira virði.

Vona þetta hjálpi eitthvað og endilega skrifaðu aftur ef þú vilt spyrja meira.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar