Burnout

    49

    Hæ, ég vinn 6 tima á dag sem launþegi og fer svo beint á æfingu í 2 tíma og svo á kvöldin er ég að vinna að minum eigin rekstri. Mig langar mikið til að læra eitt ákveðið í háskóla en það veldur bara kvíða að hugsa um það að fara í skóla, ég hef verið að hugsa hvort ég sé kominn í burnout, vegna þess að mér líður ekki vel andlega og langar ekki lengur til að gera neitt að þvi sem ég hef áhuga á, ég er alltaf þreyttur og mataræðið er í ruglinu.

    Hæ og takk fyrir að hafa samband.

    Það er leitt að heyra að þér líði ekki vel andlega og er greinilega nóg að gera hjá þér. Kulnun (e. burnout) er afleiðing langvinnrar streitu og eru líkur á að þú sért að stefna þangað eða jafnvel nú þegar kominn þangað.

    Það er mjög jákvætt að þú sért að hreyfa þig en slæmt mataræði og lítill svefn getur farið mjög illa með orkubú okkar og ýtt undir vanlíðanina. Þreyta er eitt af einkennum kulnunar ásamt pirringi, einbeitingaskorti, hausverk, óþolinmæði o.fl.

    Kulnun getur tengst starfsumhverfi en einnig öðru steituvaldandi umhverfi, eins og á heimilinu eða í íþróttum og námi t.d., á meðan þunglyndi er óháð umhverfi. Kulnun tengist gleðileysi sem er eitt helsta einkenni þunglyndis en kvíði og þunglyndi eru algengir fylgifiskar streitu.

    Það getur verið rosalega gott og jafnvel nauðsynlegt að tala við fagaðila (sálfræðing, geðlækni…) þegar við upplifum slíka streitu. Hægt er að tala við heimilislækni sem getur ráðlagt þér hver næstu skref eru ,t.d. hvaða fagaðila væri best að hitta.

    Það gæti einnig reynst þér gott að minnka aðeins álagið í kringum þig og einblína á færri en fleiri hluti í einu meðan þú vinnur í því að komast í meira jafnvægi. Stundum þurfum við bara aðeins að stoppa og reyna að forgangsraða þeim hlutum sem næra okkur best, andlega og líkamlega.

    Hér að neðan er smá lesefni um kulnun sem gæti gagnast þér.

    Virk
    Vísindavefurinn
    VR

    Gangi þér sem allra best.

    Mbk.
    Áttavitinn ráðgjöf.

     


    • Var efnið hjálplegt?
    •    Nei

    Ert þú með spurningu?

    Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

    Spyrja spurningar