Ég bara næ ekki að slaka á

    50

    Mér gengur hræðilega í lífinu mínu ég bý en þá með móður minni sem er með dópista á heimilinu, mér gengur ekki vel í Menntaskólanum og ég hef engan til að styðja mig. Ég er með kvíða og þunglyndi og gæti þurft að fá sálfræðing til að fengið að tala við meðan ég geng í gegnum erfiðleikanna.

    Hæ og takk fyrir að hafa samband.

    Það er leitt að heyra að þér líði ekki vel og að þér finnist þér ganga illa í lífinu. Það munu alltaf vera einhverjar hraðahindranir á lífsleiðinni en ljósi punkturinn er að ekkert er óyfirstíganlegt.

    Það að þú sért að hafa samband við okkur og að spá í að fara til sálfræðings er mjög jákvætt og merki um það að þú sért tilbúin/n í smá sjálfsvinnu sem er okkur öllum svo mikilvæg.

    Fyrsta skrefið getur oft verið að fara til heimilislæknis sem getur aðstoðað þig við að finna réttan aðila (sálfræðing) til að tala við.

    Ef þú getur ekki treyst á stuðning frá nánustu fjölskyldu getur verið gott að tala við vini (jafnvel foreldra vina) ef þú treystir þér til og fengið stuðning þá úr öðrum áttum. Stuðningur getur nefnilega komið úr ólíklegustu áttum.

    Ef þér er að ganga illa í námi getur verið gott að ræða við námsráðgjafa um áhyggjur þínar varðandi námið og jafnvel láta vita af aðstæðum þínum og ástæðu fyrir því að þú eigir erfitt með að einbeita þér að náminu.

    Þú þarft að setja þig í fyrsta sæti og hlúa vel að andlegri líðan þinni. Ef þér líður ekki vel heima þarf að finna lausn á því hvort sem er að opna umræðuna heimafyrir, athuga hvort að þú getir fengið að búa annarsstaðar þar sem þér líður betur (ömmur, afar, frænkur, frændur, vinir…)

    Ef við erum með neikvæða orku í kringum okkur verðum við að finna styrk til að breyta henni eða einfaldlega losa okkur við hana. Sem dæmi: Ef þú átt vin sem lætur þér líða illa þá máttu labba i burtu. Þú þarft ekki að vera vinur þess aðila ef það hefur neikvæð áhrif á þína líðan. Það má setja öðrum mörk, fjölskyldunni líka.

    Ekki hika við að hafa samband ef þig vantar frekari aðstoð eða upplýsingar.

    Gangi þér sem allra best.

    Mbk.
    Áttavitinn ráðgjöf.

     

     


    • Var efnið hjálplegt?
    •    Nei

    Ert þú með spurningu?

    Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

    Spyrja spurningar