Ég er 14 ára og mig vantar pening, hvar get ég fengið vinnu? Ég er viss um að ég vilji vinna með skóla.
Hæ,
það er spurning hvort það sé eitthvað rosalega sniðugt að fá sér vinnu með skóla þegar maður er í 9. bekk. það er miklu frekar að einbeita sér að námi og tómstundum. Því framundan í lífinu er mikill tími sem þú átt eftir að eyða í vinnu. Ég myndi miklu heldur njóta þess að vera 14 ára og nota fríatímann með vinum.
En til að svara spurningunni þinni þá verð ég að byrja á því að segja þér að á Íslandi eru lög og reglur sem takmarka það hvað börn og ungmenni mega starfa við. Í þínu tilfelli þá mega allir 13-14 ára vinna létt störf í allt að 2 klst. á dag á starfstíma skóla en 7 klst. á dag utan starfstíma skóla. Þó má ekki vinna á milli kl. 20 á kvöldin til kl. 6 á morgnana og þú átt rétt á a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring. Kynntu þér betur reglur um vinnutíma barna og ungmenna á vef VR
Ef þú ert full viss um að leita þér að vinnu, þá þarf oft ekki að leita langt til að bjóða fram krafta sína. Fjölskyldufólk er oft í leit að ábyrgum aðila sem það treystir til að passa börnin af og til, og sumir vilja gjarnan borga fyrir að láta þrífa heima hjá sér eða þrífa bílinn. Slík aukavinna getur oftar en ekki verið mjög heimilisleg og hugguleg og boðið upp á skemmtileg samskipti. Þá er líka oft þörf á blaðberum til að bera út blöð á morgnanna t.d. hjá morgunblaðinu.
Síðast og ekki síst ræddu þessi áform þín við foreldra þína. Því þau þurfa að samþykkja að þú skrifir undir ráðningasamning.
Gangi þér vel.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?