Ég er 22 ára karlmaður og er ástfanginn af 16 ára stelpu

592

Ég er 22. árs karlmaður og er ástfanginn af 16 ára stelpu.
Við erum í sambandi, elskum hvort annað ólýsanlega mikið og erum hamingjusöm þegar við erum saman en foreldrum hennar líkar mjög illa við mig og þau segja henni að hún meigi ekki hitta mig og að við eigum að hætta saman.
Við höfum talað við þau áður og sagt þeim hvernig okkur líður en það breytir engu – það eina sem þau sjá í mér er einhver perri sem riðlast á dóttir þeirra.

svo hérna eru nokkrar spurningar.

1. Er þessi aldurs/þroskamunur eðlilegur eða er ég bara einhver barnaperri ?
2. Geta foreldrar hennar bannað henni að hitta mig og neyða okkur að hætta saman ?
3. Veist/vitið þú/þið um einhver ráð til þess að breyta skoðunum þeirra á mér eða fara á bak við þau ? þótt við viljum það helst ekki
4. Ég hef enþá ekki sagt móðir minni frá okkur af því að ég held að hún verði svo vonsvikin að ég sé að deita stelpu undir 18 ára og að hún sé einu ári eldri en systir mín. ert/eruð þú/þið með einhver ráð um hvernig ég eigi að fara að ?

Takk fyrir

Vá þetta eru erfiðar spurningar og flókin aðstaða sem þið eruð komin í.  Ég skil að þetta valdi ykkur áhyggjum af framtíðinni.  Auðvitað er ungt fólk mismunandi í þroska á þessum aldri og misjafnt hve mikið finnst fyrir aldursmun eins og ykkar, 6 ár.  Þetta virðist mikið núna, sérstaklega þar sem hún er bara 16, en ef þið væruð 20 og 26 þá væri sagan önnur.  Inn í þetta spilar svo líka reynsla ykkar af samböndum og kynlífi.  Ég skil áhyggjur foreldra, og ég skil ykkar aðstæður líka.  Ástin spyr ekki að stétt né stöðu…né aldurs.  En það verður að taka til greina að þú ert þetta mikið eldri og ert líklega mun reynslumeiri og því ákveðin hætta á ójafnvægi í sambandinu, að þú sért sá sem veit betur.  Það er hættan sem þið verðið að varast og þú getur forðast það með ást og virðingu fyrir henni.  Líklega verður tíminn að vinna með ykkur þar til fólkið ykkar sér að þið eruð hamingjusöm saman og að þið séuð í góðu og traustu jafningja sambandi.

Þó að þú hrífist af stelpu sem er 16 ára þá gerir það þig ekki að barnaperra, þetta fer eftir þroska stúlkunnar.  Allir þekkja pör sem hafa verið saman frá unglingsárum, vissulega ert þú komin yfir unglingsárin en þó kannski bara rétt svo.  Hún er í raun ekki orðin sjálfráða en það er þó ekki refsivert að stunda kynlíf með henni (með hennar samþykki auðvitað), þar sem hún er orðin eldri en 15 ára.  Hjá umboðsmanni barna er að finna reglugerðir sem vernda einkalíf barna, s.s. yngri en 18 ára, þar segir:

„Almennt  er talið að  foreldrar hafi rétt til að ákveða hvers konar uppeldi þeir veita börnum sínum en að of mikil íhlutun í málefni þeirra geti verið andstæð grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og  friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Litið er svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt stjórnarskrárákvæði þessu þó að línan á milli þess hvað fellur undir skyldu foreldra til að vernda börn sín og hvað fellur undir of mikla afskiptasemi foreldra geti stundum verið óljós.“

Þetta er sem sagt á gráu svæði hvað foreldrar geta bannað og ekki bannað. Mín ráðlegging til ykkar er að halda áfram að fá þau á ykkar band.  Að sýna hvernig ykkar samband er.  Að sýna þeim að vinátta og virðing sé ykkar á milli.  Og mikilvægt að þið unga parið sýnið foreldrunum skilning og þolinmæði.  Þau vita ekki hvernig ykkar samband er, bara þið sjálf vitið það og finnið það.  Foreldrarnir þurfa tíma til að sjá það.  Þú skalt endilega ræða við þína foreldra sem fyrst, miklu betra að þau heyri það frá þér að þið séuð saman, og þú útskýrir að þetta sé ástarsamband og að þú vitir að aldursmunurinn sé mikill og að þetta sé flókið og allt það.  Ekki fara í feluleik og reyna að fela sambandið fyrir einum né neinum, þá er eins og sambandið sé eitthvað rangt, eitthvað sem þarf að fela og það viljið þið ekki.  Passið ykkur að tala saman um þessi mál ykkar á milli líka.   Vertu einlægur og þá mun þetta verða í lagi, kannski tekur það smá tíma en það er þess virði ef þetta samband og þessi stelpa er hin eina sanna.

Þið getið kynnt ykkur margt um réttindi og lögin á vef umboðsmanns barna á www.barn.is

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar