Ég er hætt að borða og er byrjuð að hreyfa mig mjög mikið

266

Ég er 16 ára stelpa og ég er að glíma við sjálfshatur, ég skammast mín fyrir hver ég er og ég hef alltaf hatað hvernig ég lít út. Ég er hætt að borða og er byrjuð að hreyfa mig mjög mikið, stundum kemur fyrir að ég borða rosa mikið og ég æli því strax. Mér svimar stanslaust og ég er búin að grennast og léttast
Hvað getur þetta verið?

Þessi einkenni sem þú ert að lýsa gætu verið átröskun.  Það er mjög alvarlegt mál að vera með átröskun og þú ættir að leita aðstoðar sem allra fyrst.   Best er ef þú treystir þér til að ræða þetta við foreldra eða aðra fullorðna í fjölskyldunni sem þú treystir og fá stuðning þeirra til að fá aðstoð.   Þú gætir líka rætt við skólahjúkrunarfræðing, námsráðgjafa eða kennara í skólanum þínum ef þú treystir þér ekki til að ræða þetta heima.

Þú gæti pantað þér tíma hjá lækni á heilsugæslunni í þínum bæ eða hverfi og rætt málin þar.  Það er mikilvægt að þú ræðir við fagaðila, lækni og/eða sálfræðing.  Heimilislæknir getur vísað þér áfram til sérfræðinga ef þörf er á.   Ef þú ferð til heimilislæknis þá áttu rétt á trúnaði, þannig að þú getur rætt málin þar án þess að það fari neitt lengra.

Endilega ræddu þetta sem fyrst, því fyrr sem þú tekur á málinu því meiri líkur eru á að líða betur fljótt.  Það getur skapast hættulegt ástand í líkamanum við að svelta sig og/eða kasta upp eftir að þú borðar.  Þetta er mikið álag á líkamann og getur haft hættulegar afleiðingar.  Einnig er hættta á því að þessu fylgi slæmt andlegt ástand sem þú þekkir því miður líklega, bæði kvíði og depurð.

Ef þú ert óviss hvert þú vilt leita getur þú hringt í 1717 og fengið ráðleggingar þar hvaða þjónusta er nálægt þér og rætt það hvern þú treystir þér til að tala við.  Það er alveg nafnlaust að hringja þangað og ókeypis.   

Þú ert þess virði að líða betur og fara betur með þig.  Hafðu samband sem fyrst. 


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar