sæl
Ég er með rosalega brotna sjálfsmynd og er allt annað en confident.
Þannig er málið að mig langar rosalega að byrja að stunda kynlíf en ég er svo ofboðslega hrædd um að strákurinn eigi bara eftir að æla uppí sig þegar hann sér hvað líkami minn er ógeðslegur (er í mikilli yfirstærð og er t.d öll slitin og ógeðsleg)
Ég er að byrja að vinna í mínum málum en mig langar samt að geta liðið vel með líkama minn á meðan ferlinu stendur?
Það hjálpar ekki til þegar fallega mjóu vinkonur mínar kalla sig hjúts og feita og gera sér ekki grein hvað þær eru að rífa mig í tætlur í leiðinni…
Hjálp?
Hæ
Þú segist vera að byrja að vinna í þínum málum og ég vona að það snúi að því að vinna í að byggja upp sjálfstraust…ekki bara byrja að vinna í því að grennast. Það er auðvitað partur af sjálfsmyndinni að hugsa vel um sig, hreyfa sig og borða hollt, en talan á vigtinni má ekki vera aðal málið. Þetta helst í hendur. Ef þú æfir þig í að hugsa vel til þín, sýnir sjálfri þér hlýju og skilning ásamt því að hreyfa þig og koma vel fram við kroppinn þinn þá nærðu markmiðinu. Markmiðið er að sættast við sjálfan sig og vita að maður er mikils virði sama hvernig maður lítur út. Þú átt rétt á hamingju og gleði hvort sem þú ert 60kg eða 100kg. Ég veit samt hvað þú ert að tala um. Það er auðvelt að ráðleggja og það er auðvelt að segja svona…að segja að sjálfsmyndin snúist ekki bara um kíló þegar allt í kringum okkur bendir til að sjálfsmyndin snúist einmitt um útlitið og bara útlitið. En trúðu mér, þegar allt kemur til alls þá er þetta ekki svona einfalt. Ef það væri þannig þá væru allar mjóu stelpurnar geggjað hamingjusamar…og þær eru það ekki. Þetta snýst um að sættast, að vera vinkona sín og styðja og standa með sjálfum sér. Þú gætir t.d. hugsað að það sé í lagi að vera of þung en þig langi bara ekki að vera það lengur og því ætlir þú að vinna í því, fyrir sjálfa þig. Þú ætlar að gefa þér tíma til að gera þetta rétt og á hollan hátt sem fer vel með líkamann af því að þér þykir vænt um hann. Þetta er eini líkaminn sem þú átt.
Þegar kemur að því að þú hittir gaurinn sem þú vilt vera með og hann vill vera með þér þá er það ekki slit eða fellingar sem hann verður að pæla í þegar þið eruð tilbúin að stunda kynlíf saman. Hann er glaður og spenntur að fá að vera með þér og njóta einhvers með þér …og mögulega er hann að hafa áhyggjur af því að vera með bólur á bakinu eða skakkt typpi. Og þú vilt örugglega alls ekki að hann sé að hafa áhyggjur af því, af því að þér finnst hann frábær. Hann mun hugsa þannig um þig líka, vonar að þú sért ekki með áhyggjur af því hvað honum finnst (þó þú sért með fellingar á maga eða þykk læri). Þannig verður þetta amk. ef hann er þess virði að eyða tíma í.
Það gæti verið gott fyrir þig að fara í viðtöl hjá sálfræðingi eða geðhjúkrunarfræðingi, kannski er frábær skólahjúkunarfræðingur eða námsráðgjafi í skólanum sem þú gætir talað við og fengið hvatningu og stuðning. Spáðu í því hvers þú þarfnast til að líða betur með þig. Það er margt í boði, sjálfstyrkingar námskeið eða einstaklingsviðtöl. Hefðir þú stuðning foreldra með að sækja svoleiðis? Einnig kemur sjálfstraustið betur fram þegar þú ferð að hreyfa þig og hugsa betur um þig, jafnvel þó að kílóin hrynji ekki af þá mun þér vonandi fljótt líða betur með þig.
Endilega skrifaðu aftur ef þú vilt spyrja nánar út í eitthvað af þessu.
Gangi þér vel.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?