Mamma mín drekkur mjög mikið,hvort sem það er mið vika eða helgi, og hefur gert frá því áður en ég fæddist, hún er alkóhólisti í mikilli afneitun. Pabbi minn drekkur ekki mikið en hann er mjög meðvirkur. Hann fer oft í ríkið og kaupir meira vín fyrir mömmu. Það sem er verst við alkóhólisma mömmu minnar er að hún skiptir skapi mjög fljótt, verður önnur manneskja og tekur bræðisköst út af engu. þessi bræðistköst hafa all oft valdið því að ég og pabbi minn förum af heimilinu í lengri eða styttri tíma á meðan hún lætur renna af sér. Svo þegar við komum aftur heim er bara eins og ekkert hafi skeð og allt verður eins og það var áður. Það gefur auga leið að þett er ekki heilbrigt fyrir neinn aðila málsins en ég veit ekkert hvað ég get gert. Það hefur líka ekki verið fyrr en svona síðastliðið eitt og hálft ár að ég hef tekið eftir því hve mikil áhrif þetta hefur á mig, hversu mikið ég hef lært að lifa með þessu og hunsa þetta. Það hefur komið fyrir tvisvar að ég hef þurft að gista hjá vinkonum mínum í smá tíma því aðstæðurnar heima við hafa ekki boðið upp á annað. Í annað skiptið kom það fyrir að mamma gleypti einhverjar pillur til að enda líf sitt en sem betur fer komst hún undir læknishendur í tæka tíð. En eins og iðulega, þegar ég kom heim var eins og ekkert hefði komið fyrir. Sem betur fer á ég mjög góðar vinkonur sem ég hef getað leitað til þegar ástandið er sem verst og fengið tímabundin ráð og huggun. En auðvitað geta jafnaldrar mínir ekki hjálpað mér í svona aðstæðum og þess vegna er ég að leita hingað, eftir ráðum og hjálp. Vegnaþess að ástandið er orðið þannig að ég kvíði því að koma heim eftir skóla af ótta við að mamma mín sé hérna dauðadrukkin og ég fer alltaf að heiman snemma á laugardögum því ég veit að þá er hún alltaf full,undantekningarlaust og mér þykir óþægilegt að vera í kringum hana. Svo ég biðla til ykkar, hvað í ósköpunum getur 16 ára stelpa gert í svona aðstæðum?
Hæ
Engu barni ætti að vera boðið upp á svona heimilisaðstæður. Mikið er gott að heyra að þú eigir svona góðar vinkonur sem þú getur talað við. Það er sárt þegar aðstæður eru orðnar svona vegna veikinda mömmu þinnar. Hún hefur misst stjórn á áfengisneyslunni og þegar hún drekkur þá breytist hún. Pabbi þinn er líklega að reyna að halda öllu góðu eins og þú segir. Þau eru líklega ekki að átta sig á hvaða áhrif þetta er að hafa á þig og þau.
Þú þarft að leita aðstoðar sem allra fyrst og í raun foreldrar þínir líka. Skoðaðu netsíðuna hjá Sáá. Það er www.saa.is . Þar eru mjög góðar upplýsingar um áfengisvanda. Þar er einnig fjölskyldudeild þar sem þið pabbi þinn gætuð fengið upplýsingar og ráðgjöf. Það væri mjög gott ef þú getur rætt það við pabba þinn að koma í viðtal til SÁÁ. Það er hægt að panta í síma 5307600. Ef þú treystir þér ekki til að ræða það við pabba þinn þá gætir þú kannski talað við ömmu eða afa eða annan fullorðinn um málið til að fá stuðning.
Þú getur líka hringt í umboðsmann barna til að fá viðtal og ráðleggingar, s. 5528999. www.barn.is.
Ég hvet þig til að ræða við pabba þinn og mömmu ef þú treystir þér til. Þú ert ekki vond eða leiðinleg þó þú viljir ræða málin og óskir þess að mamma þín fái þá hjálp sem hún þarf. Þið þurfið líka að fá stuðning og ráð hvernig sé best að styðja hana í að ná bata.
Ég vona að þú ræðir við einhvern sem fyrst, ef þér líst ekki á þessar tillögur og treystir þér ekki til að ræða þetta heima eða hafa samband við Sáá eða umboðsmann barna, sendu okkur í Tótal þá aftur fyrirspurn og gefðu upp símanúmer, það mun ekki birtast á síðunni. Þú getur fengið viðtal við ráðgjafa frá okkur ef þú vilt, þá hringjum við í þig og finnum tíma.
Gangi þér vel.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?