Ég þoli ekki líkamann minn

332

Hæ, ég er 16 ára. Ég er rosalega óörugg með líkamann minn út af því að ég er með ‘útstæða píku’ eða ‘outie vagina’ eins og sagt er á ensku. Ég þoli ekki líkamann minn, mér finnst erfitt að fara í sund og ég hugsa um þetta á hverjum degi afþví það var mér að kenna að hún varð svona, það gerðist fyrir um 3 árum þegar ég nuddaði snípinn of fast. Ég hef meira að segja verið að hugsa um mögulegar aðgerðir til að láta laga þetta. Er eitthvað sem ég get gert í þessu?

Mikið er leitt að heyra hvernig þér líður vegna líkamans og hve mikil áhrif þetta hefur á þig.  Ég veit ekki alveg hvað ég get sagt sem gæti mögulega látið þér líða betur.  Ég reikna með að þú vitir að píkur eru allskonar, og það er ekki til eitt útlit sem er rétta útlitið á píku…ekki frekar en á andliti eða fótum.  Og rétt eins og með útlit á fólki þá hefur fólk mismundandi álit á því hvað sé fallegt.

Ég hef reyndar aldrei heyrt talað um útstæða píku, reyndar heyrt enska orðið outie vagina.  En hér er átt við innri skapabarma sem að ná út fyrir ytri skapabarma.  Það er fremur algengt og ekkert að því.  Ég efast um að þú hafir valdið þessu með því að nudda snípinn of fast.  Það gæti alveg hafa valdlið einvherjum þrota (bólgu) í skapabörmunum en ætti ekki að breyta útliti þeirra til frambúðar.  Líklega hefur þú tekið meira eftir þessu eftir að það gerðist og svo breytist píkan líka mikið á þessum árum, frá 13-16 ára.  Þannig að þú skalt ekki ásaka sjálfa þig.

Píkur og typpi eru allskonar, það eru ekki margir sem spá í útlitinu á kyfærunum þegar fólk verður hrifið hvort að öðru.  Það er ekkert „turn off“ þó að typpi sé bogið eða skapabarmar stórir.  Svo breytast líka kynfærin í kynlífinu, bæði typpi og skapabarmar og snípur stækka þegar kynferðisleg örvun verður og blóðflæði eykst á svæðinu.   Eins er það svo persónubundið hvað hverjum og einum þykir sexy.

Ef þú hefur áhyggjur af því að útlitið sé óeðlilegt eða sem sagt að eitthvað sé að þá ráðlegg ég þér að fara til kvensjúkdómalæknis í skoðun.  Það gæti verið gott fyrir þig að heyra að allt sé ok. og alveg eðlilegt að panta sér tíma.   Það eru til aðgerðir hjá lítalæknum sem að minnka skapabarma en það er alls ekki ráðlagt að fara í slíkar aðgerðir meðan þú ert svona ung og átt mögulega eftir að eignast börn.

Ég vona þú getir sæst við kroppinn þinn.  Ég er viss um að þú ert að dæma útlitið þitt of hart og efast um að aðrir geri það eða taki eftir þessu þó að þér finnst þetta áberandi.

Gangi þér vel.  Endilega skrifaðu okkur aftur ef þú vilt spyrja meira.

Hlýjar kveðjur.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar