Ég er upp og niður í skapi, sef lítið oft en stundum heilan dag. Fæ ekki kraft í til að fara úr húsi. Sjálfsmorðshugsannir verða sífellt betri lausn en svo fjarar það út.
Ég á allt sem mig vantar en samt finnst mer ég þurfa meira.
Ég fer að sofa glaður kannski en vakna alveg svakalega þungur og þeir dagar fara oftast fram undir sæng. Ég á 3 börn, er í fullri vinnu, nota ekki áfengi eða fíkniefni. Hef verið sveiflandi í skapi frá barnsaldri.
Varð fyrir áfalli þegar ég var mjög ungur.
Samskipti við fólk á ég oft mjög auðvelt með en núna þegar ég skrifa þetta þá vil ég ekki hitta neitt fólk
Sæll
Það er erfitt að átta sig á hvað gæti verið í gangi hjá þér. Það er þó greinilegt að heilsan og líðan er ekki eins og best er á kosið. Þú skalt endilega panta þér tíma í viðtal. Þú getur til dæmis byrjað á heilsugæslunni. Pantað tíma hjá lækni og rætt málin. Þá færðu álit og ráð hvert sé best að leita áfram og hvaða úrræði eru í boði. Þú getur auðvitað líka pantað þér hjá sálfræðingi ef þér líst betur á það. Það er fyrst og fremst mikilvægt að þú ræðir þetta við einhvern sem getur ráðlagt þér og metið líðan þína með þér. Að hafa hugsanir um að deyja er alvarlegt mál og þessi líðan, vanmáttur, dofi og framtaksleysi er ekki ástand sem þriggja barna faðir getur sætt sig við. Mögulega þarftu aðstoð við að vinna úr áfalli í æsku eins og þú nefnir. Áföll geta haft miklar afleiðingar og geta blossað upp þegar síst varir.
Ég hvet þig til að panta tíma hjá lækni á heilsugæslunni og ræða málin þar. Ef þú finnur mikla versnun eða þyrmir yfir þig þá máttu líka alltaf leita á bráðamóttöku geðdeilda en hún er á fyrstu hæð í geðdeildabyggingunni við Hringbraut. Þangað má mæta án þess að eiga pantaðan tíma ef erindið er brátt. Það er opið frá kl. 12:00-19:00 virka daga og kl. 13:00-17:00 um helgar. Sími bráðamóttöku geðdeilda er 543 4050.
Gangi þér vel.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?