Góðann dag
Ég er 21 árs karlmaður. Ég hef alltaf verið frekar introverted og feiminn. Ég var lagður í einelti þegar ég var yngri og á því erfitt að treysta fólki. Ég hef því aldrei átt marga vini og á erfitt með að halda í þá vini sem ég eignast því ég er svo mikill feimnispúki, vill helst alltaf bara vera heima í tölvunni. Er eðlilegt að eiga fáa vini á þessum aldri? Er ég of seinn til þess að eignast vini? Hvar og hvernig eignast ég vini? Hvernig hætti ég að vera svona feiminn og hvernig næ ég að halda í þá vini sem ég eignast?
Hæ og takk fyrir spurninguna.
Í fyrsta lagi mælum við með því að þú leitir til fagaðila og talir um eineltið sem þú varðst fyrir. Einelti getur haft mikil áhrif á sálartetrið og er því lang best fyrir þig og framtíð þína að horfast í augu við það sem fyrst. Það er óþarfi að hafa eitthvað í pokahorninu sem getur haft neikvæð áhrif á ákvarðanatöku þína og líðan.
Eflaust eru allir á einhverskonar rófi hvað varðar samskipta styrkleika en ég myndi ekki láta það stoppa þig. Manneskjan virðist vera þannig gerð að hún þarf félagsskap, ekki bara í gegnum netið, flestir hafa fundið fyrir því á eigin skinni síðustu misserin sökum Covid.
Svo er auðvitað að mörgu leyti eðlilegt að eiga fáa vini, en þá má spyrja sig hvað eru fáir vinir? Í dag á fólk fleiri hundruð vina á samfélagsmiðlum en það þýðir ekki að fólk sé endilega í sterkum samskiptum við neinn þeirra. Benda rannsóknir til þess að fólk geti í raun ekki átt fleiri en í mesta lagi fimm nána vini, einfaldlega vegna tímans og orkunnar sem það krefst að halda úti djúpum og sterkum tengslum.
Margir sem eiga alltaf þéttan vinahóp sem fylgir þeim alveg frá æsku til grafar missa líka af því tækifæri til þroska sem felst í því að líða vel í einveru sinni og að velja sér vini eftir eigin hugmyndum.
Vinasambönd eiga sér byrjun og enda, það er mjög skiljanlegt að eiga fáa vini í kringum tvítugt. Þá er fólk að skilja sjálft sig og heiminn betur, æskuvinir halda í sitthvora áttina, nýir skólar, nýjar vinnur, lífið tekur breytingum. Líttu á það sem tækifæri að eiga fáa vini, núna getur þú fyllt rými í lífi þínu með hverjum sem er. Vandaðu valið og settu markið hátt.
Eitt það helsta sem hægt er að gera til þess að rækta ný vinatengsl utan tölvuheima er i gegnum áhugamál. Skráðu þig á námskeið, skóla, æfingu eða mættu á viðburði sem þér finnst áhugaverðir og þú finnur fólk sem hefur áhuga á svipuðum hlutum og þú.
Rannsóknir benda til þess að stór hluti fólks finni oft fyrir einmanaleika, þú ert alls ekki einn með þessar tilfinningar. Það er gott að minna sig á það sérstaklega þegar þú ert að vera opinn fyrir nýjum vinasamböndum. Æfðu þig í að hlusta og vera til staðar fyrir fólkið í kringum þig með samkennd og vinsemd að leiðarljósi.
Þú ert svo sannarlega ekki of seinn til að eignast vini. Margir eignast sína bestu vini á fullorðinsárunum.
Mbk.
Áttavitinn ráðgjöf.
Áhugaverð vídeó:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?