Hæhæ.
Ég hef verið að pæla í að gerast vegan í svolítinn tíma núna en get ekki borðað grænmeti. Kúgast bara þegar ég reyni að borða það og hef gubbað nokkru sinnum eftir að hafa borðað það. Eina grænmetið sem ég get borðað án þess að gubba (annað en kartöflur og þannig) eru gúrkur, tómatar, baunir og gulrætur. Get ég alveg orðið vegan þrátt fyrir að geta ekki melt flest grænmeti?
Hæ og takk fyrir spurninguna.
Hvernig kemstu yfir vandlætingu þína á grænmeti og hvernig tryggir þú að þú fáir alla þá næringu sem þú þarft ef þú ert vegan?
Það væri æskilegt fyrir þig að komast til botns í því af hverju þú getur ekki borðað grænmeti svo þú fáir örruglega alla þá næringu sem þú þarft. Líklegast er að andstyggð þín á grænmeti sé sálræn en ekki að líkami hafni ákveðnum grænmetistegundum eins og þú lýsir. Ef maginn á þér getur melt gúrkur, tómata, baunir og gulrætur þá getur hann melt allt annað grænmeti.
Ein leið til þess að komast yfir andstyggð þína á grænmeti er að dulbúa örlitið af því með hinum matnum sem þú elskar að borða. Svo getur þú einnig prófað ólíkar uppskriftir grænmetisrétta frá ólíkum heimsálfum, farið út að borða og pantað af matseðli án þess að skoða nákvæmlega hvað er í matnum, borðað mat án þess að horfa á hann o.s.frv. Fáðu einhvern sem þú þekkir vel og treystir í þetta með þér og þá getur þetta verið mjög skemmtilegt ferli!
Samkvæmt skilgreiningu ertu vegan ef þú borðar ekki kjöt, egg, mjólkurvörur og neytir ekki neinna dýraafurða beint eða óbeint í fæðu, fatnaði, skemmtun eða í annarri neyslu. Ef þú aðhyllist þennan lífsstíl og hugmyndafræði og ert að fara að takmarka fæðu þína þá er sérlega mikilvægt að þú borðir sem flest úr grænmetisfæðuflokknum og kynnir þér vel hvað það er sem þú þarft að bæta upp vegna takmarkaðrar fæðu þinnar. Almennt gildir að fjölbreytni í fæðuvali er besta leiðin til að uppfylla næringarþörf líkamans. Veganar þurfa að beina athyglinni sérstaklega að próteinum, járni, sinki, kalki, joði, B12-vítamíni og D-vítamíni því þessi næringarefni finnast lítið í grænmetisfæðu.
Við mælum líka með því að skoða mismunandi leiðir til þess að færast hægt í áttina að veganisma. Þú getur til dæmis byrjað á þvi að hætta að borða rautt kjöt í nokkra mánuði og i kjölfarið minnkað neyslu þína á mjólkurafurðum og eggjum o.s.frv. Þá er auðveldara fyrir þig að fylgjast með næringunni og áhrifum á líkama þinn.
Mergur málsins: Taktu stutt skref í átt að fjölbreyttari neyslu grænmetis og minnkandi neyslu dýraafurða!
Næringarpælingar: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=438
Ýmis fróðleikur um veganisma: http://www.graenkeri.is/
Mbk.
Áttavitinn ráðgjöf.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?