Hárið mitt var orðið mjög þunnt á meðan ég var á Yasmin pillunni en var bara búin að vera 1 mánuð. Ég ákvað að stoppa því ég var með mjög fallegt og þykkt hár fyrir og vildi alls ekki missa meira. Það er núna kominn 1 mánuður síðan ég stoppaði og þetta er enn að gerast og ég veit ekki hvað ég á að gera. Þetta er mín versta martröð og hefði adrei farið á pilluna hefði ég vitað þetta. Hvað geri ég til að þetta stoppi strax? og þau segja á netinu að þetta mun gróa aftur en mun það ekki taka mörggg ár að ná sömu síddinni aftur?? alveg með hár næstum því að naflanum.
Hæ og takk fyrir að hafa samband.
Mikið er leitt að heyra að þú sért að upplifa hármissi út af pillunni. Þetta getur því miður gerst og mun alltaf taka smá tíma fyrir hárin að koma aftur. Það er hægt að taka inn vítamín sem styrkja hárvöxt og gæti það verið sniðugt fyrir þig að prófa.
Það tekur því miður oft smá tíma fyrir hormónin að fara alveg úr líkamanum en vonandi fer þetta að hætta fyrst að það er kominn mánuður síðan þú hættir á pillunni. Þetta virðist svipa svolítið til hármissins sem konur upplifa oft eftir brjóstagjöf og fá þær flestar hárin fljótlega aftur. Ef hárið á þér vex tiltölulega hratt mun þetta jafna sig fyrr en seinna.
Best er að hafa samband við þann lækni sem skrifaði upp á Yasmin fyrir þig og kanna aðra möguleika hvað varðar getnaðarvarnir. Það getur verið að hormónagetnaðarvarnir henti þér illa fyrst að þú upplifðir þessa aukaverkun. Læknirinn ætti svo einnig að geta leiðbeint þér með hvernig best er að snúa sér í þessu varðandi hármissinn.
Gangi þér vel.
Mbk.
Áttavitinn ráðgjöf.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?