Sæl verið.
Mér er búið að líða alveg mjög illa undanfarið oftar en ekki eru eiginlega engar ástæður fyrir þeirri líðan. En ég er sem sagt með endalausar sjálfsvígshugsanir og get ekki hætt að hugsa um dauðann. Hreinskilni sagt þá bið ég þess á hverjum degi að ég muni deyja bráðum, ég fer að keyra og vonast til þess að lenda í alvarlegu slysi og deyja. Ég finn alltaf eitthverja leið óvart” sem leiðir mig í sjálfsvígshugsanir alveg sama hvað ég er að gera og hvar ég er. Oft getur komið fyrir að ég verði hrædd um að gera mér eitthvað sem ég myn svo sjá eftir… mér finnst ég bara alls ekki vera þess virði að lifa og sé ekkert ánægjulegt við þetta líf því miður.
Ég hef engan til þess að tala um þetta við. Foreldrar mínir hlusta ekki á mig og segja mér bara að hætta þessu og svo treysti ég mér vara alls ekki að tala við vini mína um þetta þar sem þau flest halda að mér líði bara vel (sem er því miður alls ekki:( Ég þori ekki heldur að fá tíma hjá fagaðila eða slíkt því ég er svo hrædd um að vera dæmd.
Ég veit ekkert hvað skal gera á sama tíma og hvað ég óska þess að deyja þá vildi ég svo að þessar hugsanir eða jafnvel ehv hefðun tengd þessu væri ekki til staðar, og leita ég því til ykkar. Hvað get ég gert? Væri mjög þakklát fyrir svör
Hæ og kærar þakkir fyrir að hafa samband.
Það er ofboðslega sárt að heyra af vanlíðan þinni og að svona hugsanir læðist að þér.
Til að byrja með hefur enginn rétt á að segja þér hvernig þér líður og það eru oft þeir sem skína mest út á við sem líður svo hvað verst innra með sér. Ef foreldrar og vinir eru ekki að hlusta og sýna þér skilning þá má samt ekki hætta að leita þér aðstoðar og erum við mjög þakklát fyrir að þú leitir til okkar.
Fagaðilar munu aldrei dæma þig og ráðleggjum við þér hiklaust að tala við slíkan. Það er fólkið sem þekkir þetta best og eru í sínu starfi til að hlusta á og leiðbeina okkur.
Fyrsta skref hjá þér gæti verið að hafa samband við Píeta samtökin.
Samtökin bjóða upp á mjög flott stuðningsúrræði fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og er hægt að hafa samband í síma 552-2218 allan sólarhringinn. Einnig er hægt að mæta í eigin persónu en samtökin eru staðsett á Baldursgötu 7. Þarna starfar frábært fólk með mikla reynslu sem mun aðstoða þig við að finna úrræði sem hentar þér. Við mælum með að þú heyrir í þeim sem fyrst.
Svo er alltaf hægt að hafa samband við hjálparsíma Rauða Krossins, s. 1717.
Þú þarft ekki að gefa upp persónuupplýsingar símleiðis frekar en þú vilt, hvorki hjá Píeta né Rauða Krossinum svo ef þú finnur fyrir kvíða eða hræðslu við að vera dæmd getur verið gott að spjalla aðeins þar til þú finnur fyrir trausti og hugrekki til að ganga lengra.
Við ábyrgjumst að það mun enginn dæma þig ef þú tekur skrefið og hefur samband.
Ef þetta virkar ekki eða hentar þér ekki endilega hafðu samband við okkur aftur og við aðstoðum þig frekar.
Gangi þér sem allra best og mundu að það er alltaf von.
Mbk.
Áttavitinn ráðgjöf.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?