Hvar finn ég kærasta?

    163


    Ég er 18 ára stelpa, ég hef aldrei verið í sambandi en vinkonur mínar eru allar í sambandi og sumar af þeim hafa verið í nokkrum. Ég hef eins og ég sagði áðan aldrei verið í sambandi og aldrei einhvern veginn komist nálægt því að vera í sambandi. Ég er með smá fötlun en hún er alls ekki augljós og sést varla, margir taka ekki eftir henni strax en samt gæti hún verið málið? Vilja strákar ekkert vera með fötluðum stelpum þó hún sé mjög væg? Er það eðlilegt að vera ekki í sambandi 18 ára? Hvernig kynntist maður almennulegum strák? Eða er ég bara desperate af því ég þrái væntumþykju einhvers?

    Kv. Desperate 18 ára pía

    Sæl og kærar þakkir fyrir spurninguna.

    Við viljum auðvitað öll finna fyrir væntumþykju og er það langt í frá að vera „desperate.“

    Fötlun ætti nú ekki að vera ástæða fyrir því afhverju þú eigir ekki kærasta og ef einhver lætur þér líða þannig á sú manneskja þig einfaldlega ekki skilið, ekki flóknara en svo.

    Ef eina markmiðið er að eignast kærasta getur það hinsvegar verið vandamálið. Hlutirnir  gerast nefnilega þegar maður á síst von á þeim. Svipað og að horfa á málningu þorna… hún bara þornar ekki ef maður situr og bíður, suðan kemur ekki fyrr upp við að stara í pottinn…

    Þú ert ung og er þetta svo sannarlega tíminn til að kynnast sjálfri sér og njóta frelsisins, ekki satt. Þú getur nýtt tímann í að finna út hvað það er sem þú raunverulega vilt í lífinu, hvaða kosti þarf tilvonandi maki að hafa? Hvernig sambandi viltu vera í? Hver vilt þú vera? Hvað viltu gera í framtíðinni? Hvernig kærasta vilt þú vera? Og þar fram eftir götunum.

    Til að kynnast nýju fólki getur verið sniðugt að fara á staði þar sem þú telur að mögulegt mannsefni sé að finna sem hentar þér. Hver eru áhugamál þín? Leitaðu á staði þar sem strákar eru sem deila mögulega sömu áhugamálum og þú. Heilla fótboltastrákar þig? Mættu á leik. Viltu einhvern fyndinn… skelltu þér á uppiststand… o.s.frv.

    Svo er hægt að mæta á speed dating/friending sem t.d. Loft Hostel býður upp á, Tinder ef það er enn eitthvað fútt í því… bara vera ófeimin við að brjóta ísinn. Ef þér líst vel á einhvern, hafðu hugrekkið í að byrja að spjalla.

    Mundu bara að það þarf að þora til að skora.

    Gangi þér vel í makaleitinni.

     

    Mbk.

    Áttavitinn ráðgjöf.

     


    • Var efnið hjálplegt?
    •    Nei

    Ert þú með spurningu?

    Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

    Spyrja spurningar