Hæhæ, mamma og pabbi eru skilin og ég er oftar hjá mömmu. Ég fer einungis aðra hvora helgi til pabba. Mér líður mjög illa hjá mömmu og langar ekkert að búa hjá henni. Hvenær má ég velja hvort ég vil búa hjá mömmu eða pabba?
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Ég ætla að vitna í svar á heimasíðu umboðsmanns barna þar sem áþekk spurning var borin upp:
Foreldrar fara með forsjá barna sinna til 18 ára aldurs. Það þýðir að foreldrar ráða því yfirleitt hvar börnin þeirra eiga heima.
Ef foreldrar búa ekki saman þarf að taka ákvörðun hvar barnið á að búa. Áður en ákvörðun um hvar barn á að eiga heima er tekin á barnið sjálft alltaf rétt á að segja sína skoðun og það á að taka mikið tillit til vilja barnsins.
Þú hakar við að þú sért 14-16 ára þannig að þú átt að ráða miklu um það hvar þú átt heima. Fyrsta skrefið er að ræða við foreldra þína og segja þeim hvernig þér líður og hvað þú vilt. Það gæti t.d. verið gott að fá einhvern annan fullorðinn sem þú treystir til þess að aðstoða þig við að tala við foreldra þína, t.d. ömmu, afa, frænku eða frænda.
Gangi þér vel!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?