Ef ég vil fara í fóstureyðingu, hvert fer ég? Í hvern hringi ég? Hversu langan tíma getur það tekið að fá tíma og hvernig gengur fóstureyðing fyrir sig? Þurfa mamma og pabbi að vita af því ef ég er orðin 18?
Sæl og takk fyrir þessar spurningar.
Ég hvet þig til að fara í viðtal á kvennadeild Landspítalans áður en þú tekur ákvörðun. Þar færðu að tala við félagsráðgjafa sem getur frætt þig um þetta ferli. En þetta er algjörlega þín ákvörðun og alls ekki flókið, fóstureyðing er þó auðvitað neyðarúrræði en stundum eru aðstæður þannig að maður þarf að nota neyðarúrræðin. Þú þarft ekki leyfi frá neinum þar sem þú ert yfir 16 ára, í raun þarf auðvitað læknir og svo félagsráðgjafinn sem þú talar við að samþykkja það að þú farir í fóstureyðingu en það er afar sjaldgæft að ferlið sé stoppað. En það er mikilvægt að taka ákvörðun sem fyrst, fyrir 12. viku meðgöngu. Þetta er eins og áður sagði algjörlega þín ákvörðun en þú verður að vera sátt með þá ákvörðun sem þú tekur og það er mikilvægt að vera búin að kynna sér málin vel áður en maður tekur ákvörðun eins og þessa.
Það eru til tvær tegundir fóstureyðinga sem framkvæmdar eru fyrir 12. viku; aðgerð eða framkvæmd með lyfjum. Þú spyrð sérstaklega út í hvernig það virkar þegar meðgangan er rofin með lyfjum. Þá ferð þú á kvennadeildina og færð sérstakar töflur sem þú tekur inn, þetta lyf vinnur gegn hormóninu sem viðheldur þunguninni, þú getur fundið fyrir ógleði og stundum fylgja verkir og blæðing næstu tvo daga. Eftir þessa tvo daga kemur þú aftur á kvennadeildina og þá er sama lyf sett upp í leggöngin, þetta veldur samdrætti í leginu og því fylgja oftast verkir, en þú færð verkjalyf, svo 4-6 klukkustundum síðar má búast við blæðingu sem þýðir þá að meðgangan sé rofin, sem sagt að fóstrið sé farið. Það geta fylgt einhverjir verkir næstu daga. Þetta tekur sem sagt þrjá daga að klára ferlið. Ef fóstureyðing er framkvæmd með aðgerð þá ertu svæfð og meðgangan rofin með því að hreinsa út úr leginu með sogi, þú mætir að morgni og færð að fara heim um eftir hádegi. En báðum aðferðum fylgja verkir, líkir túrverkjum einhverja daga á eftir.
Ég hvet þig til að hafa samband á kvennadeildina, það eru símatímar hjá félagsráðgjöfum alla virka daga milli kl. 9-10 í síma 543-3600. Þar færðu upplýsingar um allt þessu tengt og svo eftir viðtalið getur þú tekið þá ákvörðun sem hentar þér best.
Grein frá maí sl. um fóstureyðingar sem birtist á Áttavitanum: https://attavitinn.is/kynlif/oletta-og-barneignir/thungunarrof-fostureydi…
Gangi þér rosalega vel og mundu að þú ræður þessu alveg sjálf, aðrir eru bara til aðstoðar og ráðgjafar.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?