Hvernig getur maður stoppað þunglyndi og sjálfsmorðshugsanir?

865

Hvernig getur maður stoppað þunglyndi og sjálfsmorðshugsanir? Mér líður alltaf illa og er alltaf á mörkunum við sjálfsmorð en reyni eins og ég get að halda í litlu hlutina sem keyra mig áfram. Ég er alltaf með þessa rödd inn í mér sem segir mér bara að enda þetta allt og stöðva sársaukann fyrir fullt og allt og það hjálpar ekki að ég á siðblinda systur sem segir mér á hverjum degi að hún hati mig og að ég eigi að drepa mig. Ég veit ekki hvort ég geti haldið áfram mikið lengur.

Takk fyrir að skrifa inn til okkar hjá Áttavitanum.  Það er einmitt þetta sem er svo mikilvægt, að orða tilfinningarnar og tala við einhvern.  Ég vona þú eigir einhvern vin eða einhvern í fjölskyldunni sem þú treystir og getir rætt við.  Það gæti hjálpað og þá fengir þú aðstoð og stuðning við að leita aðstoðar fagfólks.  Þegar líðan er orðin svona slæm eins og þú lýsir þá er mikilvægt að leita sér hjálpar hjá fagfólki.

Þú getur farið á bráðamóttöku geðdeildar, ef þú ert með hugsanir um að skaða þig þá skaltu fara þangað strax í dag.  Móttakan er staðsett á fyrstu hæð í geðdeildarbygginunni við Hringbraut og er opin kl. 12:00 – 19:00 virka daga og kl. 13:00 – 17:00 um helgar. Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.  Síminn er 5434050 hjá bráðamóttökku geðdeilda en þú mátt mæta án þess að eiga bókaðann tíma. 

Ef þér líst ekki á að fara þangað þá er gott að byrja með viðtali læknis á heilsugæslunni í þínu hverfi.  Þá getur þú fengið tilvísun til sálfræðings, geðlæknis eða fengið meðferð hjá heilsugæslulækninum, lyf og viðtalsmeðferð.  Það er gott fyrsta skref að byrja þar.  Gerðu það fyrir sjálfan þig að fresta því ekki lengur að hafa samband.  Pantaðu tíma, ef það er löng bið eftir tíma hjá lækni, farðu þá á bráðamóttöku geðdeilda, eða á læknavakt, eða fáðu viðtal hjúkrunarfræðings á vakt.  Getur byrjað á að panta símtal ef þér finnst erfitt að mæta. 

Þú getur auðvitað einnig pantað þér sjálfur viðtal hjá sálfræðingi ef þú telur að það sé betri leið fyrir þig en það felur í sér meiri kostnað.

Hjálparsíminn 1717 getur líka hjálpað.  Getur hringt hvenær sem er og fengið ráð og leiðbeiningar, svör við spurningum og líka bara einhvern sem hlustar.  Skoðaðu það hér: https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717/

Gangi þér vel og vona þú sækir hjálp og stuðning á einhvern af þessum stöðum sem allra, allra fyrst.

Bestu kveðjur.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar