Allt frá því ég man eftir mér, þá hef ég ekki getað hætt að ljúga, ég lýg öllu sem ég get, góðu og slæmu. Ég er meðvituð um þetta og finnst þetta ömurlegt, ég hata að ljúga en í hvert skipti sem ég lýg þá streymir um mig vellíðan, ég fæ eitthvað kick í nokkrar mínútur og svo líður mér ömurlega. Ég er líka ógeðslega sjálfselsk og sjálfhverf, mér finnst það ömurlegt en ég einhvern veginn get ekkert gert við því. Þetta er svona svipað og með lygarnar, ég hegða mér mjög sjálfhverft og sjálfselskulega í kringum fólk og finnst það geggjað og fæ eitthvað kick, en svo þegar ég er ein þá langar mig að æla, mig langar að kýla sjálfa mig, refsa mér, skaða mig. Það að vera meðvitaður um þetta allt lætur mig fá ógeð af sjálfri mér og lætur mér líða eins og þetta muni aldrei lagast og ég að hafi eyðilagt líf mitt.
Hvað á að gera?
Sæl og takk kærlega fyrir að hafa samband við okkur.
Það er leiðinlegt að heyra að þér líði svona illa, en gott að heyra að þú hafi komið fingri á hvað gæti verið að valda vanlíðan þinni og sért tilbúin að leita þér aðstoðar við vandamálinu.
Það að ljúga eða villa sér til um hluti er vissulega eitthvað sem við gerum öll einhvern tímann á ævinni en þetta hljómar eins og aðeins alvarlegra vandamál en þessir hversdagslegu „hvítu lygar“. Stundum segjum við ekki rétt frá af kvíða við að þurfa að standa við það sem við segjum eða ákveðum að segja ósatt frá vegna þess að við erum óörugg eða kvíðin með að berskjalda okkur fyrir fólkinu í kringum okkur. Þetta gerum við til að vernda okkur í aðstæðum sem okkur eru kvíðavaldandi og oft getur tilfinningin verið góð þó hún vari ekki lengi. Kvíðinn getur þannig orsakað að við beitum svona bjargráðum til að vernda okkur og gera okkur ekki berskjölduð fyrir gagnrýni annara. Því að þrátt fyrir að hlutirnir sem við segjum séu smávægilegir og ekki til þess gerðir að mála okkur upp sem einhverjar hetjur þá vernda þeir okkur frá hinu raunverulega. Einnig getur það veitt okkur ánægju og smá „kick“ að takast að sannfæra annað fólk um hluti sem eru eingöngu okkar tilbúningur.
Ég held að það sé mikilvægt fyrir þig að finna einhvern sem þú treystir og ræða við hann um þetta vandamál þitt. Þetta gæti verið einhver nákominn þér eða bara sálfræðingur. Auðveldasta leiðin er að panta tíma hjá heimilislækni þar sem þú myndir útskýra fyrir honum hvernig þér líður með það fyrir sjónum að fá tilvísun á sálfræðing. Það gætu verið margar ástæður fyrir því að þú beitir þessari taktík í samskiptum við fólk en það er mikilvægt að skoða hvað það er sem veldur þessu. Það mikilvægasta er að fá hjálp við hugsununum sem eru að rífa þig niður, vera mjúk og mild við sjálfan þig og að æfa þig í að vera hreinskilin og berskjalda þig fyrir fólkinu í kringum þig. Það getur tekið smá tíma að breyta hegðun sem við erum vön, en það er svo sannarlega hægt!
Það þarf líka mikið hugrekki til að senda inn svona spurningu og það er fyrir mér sönnun þess að þú getir tekið á þessu vandamáli og haft betur.
Hérna eru hlekkir sem gætu orðið þér að gagni:
https://gedfraedsla.is/hvert-get-eg-leitad/
https://hitthusid.is/radgjof-og-forvarnir/#rrabla-
Ef það eru einhverjar fleiri spurningar ekki hika við að senda til okkar.
Með hugheilum kveðjum
Ráðgjafi Áttavitans.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?