Líf eftir grunnskólaþvingun?

35

Er til eitthvað úrræði fyrir fólk sem hefur afplánað grunnskóladóminn sinn en hafði engin áform um hvað kæmi eftirá af því bara það að lifa af grunnskólann var nógu erfitt? Ég hef leitað mér hjálpar bæði hjá Berginu og Píeta en það virðist enginn skilja hversu mikið áfall grunnskólaþvingun er og hversu mikið þetta situr eftir í manni, það er hvergi sem ég get leitað þar sem manni er sýndur skilningur, eina ástæðan af hverju ég stytti mér ekki aldur er af því að trúi mjög bókstaflega á endurfæðingu og ég vill ekki einu sinni taka áhættuna á því að vera þvingaður til skólagöngu aftur, og líka af því að ég er 24 og finnst ég hafa misst af tækifærinu til þess að fyrirfara mér. Ég sé samt enga ástæðu til þess að lifa eftir að bestu ár lífs míns voru rænd af mér og mér sagt að það væri forréttindi að vera niðurlægður á þennan hátt. Hvert er hægt að leita í þessari stöðu? Ég vill ekki taka áhættuna á því að vera að tala við sérfræðing og þau bókstaflega reyna að réttlæta barnaníð með einhverjum stokk frasa eins og „eN þAÐ Er SkÓLasKyLDa á íSLanDI“ á meðan maður er að tjá sársauka sinn fyrir þeim, ég hef lent í því tvisvar núna og veit ekki hvort ég umberi þriðja skiptið. Er fólk eins og ég bara svo gallað að ég á að fjarlæga mig úr þessu lífi og skólaþvingun er bara einhverskonar filter fyrir gölluð börn eins og mig? Frá sjónarmiði skólakerfisins og barnaverndar var ég alltaf vandamálið og þurfti að leysa mig sjálfan með sjálfsvígi, sú vitneskja að allir í kringum mig vildu sjá mig þjást og deyja fyllti mig af nógu miklu hatri og reiði að það hélt mér gangandi í gegnum barnæskuna og unglingaárin, en núna er ég fullorðinn og of úrvinda fyrir reiði eða hatur, nú er ég bara óviss og agndofa. Maður á víst að öðlast skilning með árunum en ef lítið barn spurði mig „af hverju  ólöglegt að fæðast á íslandi? af hverju er refsingin fyrir það að vera barn 10 ár af sálfræðilegri pyntingu og reglulegri niðurlægingu, hvað gerði ég til þess að eiga þetta skilið?“ þá hefði ég ekkert gott svar fyrir hann, ég hef velt þessari spurningu fyrir mér síðan ég var yfirgefin á ríkisrekinni stofnun í fyrsta skiptið sem barn. Ég veit núna samt að ef maður reynir að beita skynsemi til þess að skilja geðveiki þá missir maður sjálfur vitið, þannig að ég geri allt sem ég mögulega get til þess að einangra mig frá þessu samfélagi og fólkinu í því en ég þarf samt að fara út úr húsi til þess að vinna og svoleiðis, þannig að sjálfsvíg er alltaf mikil freisting, ég held í vonina að fulleinangrun sé möguleg en sjálfsvíg er alltaf gífurleg freisting þegar valið er á milli þess eða fara í vinnuna.

Hæ hæ og takk fyrir að hafa samband.

Það er mjög erfitt að heyra af reynslu þinni og upplifun. Það er greinilegt að „kerfinu“ hefur ekki tekist að hjálpa þér að takast á við upplifun þína og líðan í gegnum skólagönguna og á þessum mikilvægu mótunar árum.

Við getum að sjálfsögðu bent þér á úrræði sem gæti verið gott fyrir þig að athuga með. Þau væru t.d GeðhjálpHjálparsími Rauða Krossins og bráðamóttaka geðdeildar. Við hvetjum þig að sjálfsögðu til að leita til þessara aðila og sjá hvort þau geti aðstoðað þig.

En við skiljum einnig að það getur verið erfitt að koma sér í samband við þessa aðila, sérstaklega ef önnur sambærileg úrræði hafa brugðist manni. En það er svo sannarlega þess virði að gera það ef það er einhverja aðstoð þar að fá.

Grunnskóli getur verið mjög erfiður og krefjandi tími, fyrir marga er erfitt að finna sér stað í slíku samfélagi og upplifun þín er líklegast eitthvað sem fleiri hafa lifað.

Lífið er samt langt því frá búið og þessi svokölluðu bestu ár lífs okkar eru ekki þau sömu fyrir alla. Sem fullorðinn einstaklingur þá hefur þú svigrúm til að taka ákvarðanir og prófa hluti sem ósjálfráða og fjárhagslega ósjálfstæður einstaklingur getur ekki. Lífið hefur uppá margt að bjóða og það er oft ekki fyrr en seinna á lífsleiðinni sem við finnum hvað það er sem veitir okkur hamingju. Það er jú það sem þetta snýst allt saman um. Að gera það sem við þurfum að gera til að líða vel í eigin skinni og finna hamingjuna. Hún er aldrei eilíf, lífið er strembið og fyrir lang flest okkar fullt af áföllum.

Að ferðast um heiminn og kynnast ólíkum menningarheimum getur gefið okkur nýtt sjónarhorn á lífið og áhugamál hvers eðlis sem þau eru gefa hversdeginum tilgang.

En allra mikilvægast er að hlúa að geðheilsunni og við hvetjum þig til að skoða þau úrræði sem við nefndum hér að ofan.

Endilega heyrðu í okkur aftur, höldum samtalinu opnu og við óskum þér alls hins besta!


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar