Lykkja eftir fæðingu?

1133

Hæhæ
Ég var að eignast barn fyrir nokkrum vikum og var að spá í að byrja á lykkjunni, hvaða tegundir af lykkjum eru til og þarf ég í alvöru að panta tíma hjá lækni og fá hann til að skrifa uppá hana og panta nýjan tíma svo hann geti komið henni fyrir?

Sæl og til hamingju með barnið.

Tvær algengustu tegundir lykkjunnar sem eru í boði eru hormónalykkjan og koparlykkjan. Báðar hafa kosti og ókosti, eins og gengur með svona lagað.

Hormónalykkjan er örugg getnaðarvörn sem virkar um leið og hún er sett upp og hana má nota í allt að fimm ár. Það er svo hægt að láta fjarlægja hana hvenær sem er, t.d. ef óskað er eftir þungun. Hormónalykkjan er fín fyrir konur sem fá miklar blæðingar þar sem blæðingar minnka og hætta jafnvel alveg á meðan notkun á lykkjunni stendur. Einnig er talað um að lykkjan henti vel konum sem hafa átt barn eða eru yfir 35 ára, en aldurinn er einungis viðmið. Ókostir hormónalykkjunnar eru að hún getur færst úr stað og gott er að fylgjast með því eftir fyrstu milliblæðingar, skyldu þær eiga sér stað. Einnig geta tímabundnar aukaverkanir á borð við skapbreytingar, höfuðverk og bólur á húð komið fram.

Koparlykkjan er einnig örugg getnaðarvörn sem virkar strax og dugar í 3-7 ár (fer eftir tegund). Hana má einnig fjarlægja hvenær sem er sé óskað eftir þungun. Koparlykkjan hefur engin hormónaáhrif en tíðarblæðingar geta verið meiri en áður, sér í lagi fyrst um sinn. Ókostir hennar eru að hún getur færst úr stað og ef það gerist þá gæti verið möguleiki á þungun. Ef slíkt gerist er meiri hætta á utanálegsfóstri. Þá eru konur gjarnan viðkvæmari fyrir sýkingu í legi á koarlykkjunni.

Lykkjan kemur ekki í veg fyrir smit á kynsjúkdómum.

Í sambandi við uppsetningu þá er best að panta tíma hjá kvensjúkdómalækna og taka það fram að þú sért að hugsa um að fá lykkjuna. Þegar þú mætir á staðinn lætur læknirinn þig fá lyfseðil og bíður eftir þér á meðan þú ferð í apótek (sem er oftar en ekki staðsett í sömu byggingu og kvensjúkalæknar). Þú þarft því ekki að panta tvo tíma. Oft er líka gott og mælt með því að konur fari til kvensjúkdómalæknis í skoðun stuttu eftir að þær eignist barn svo þú gætir slegið tvær flugur í einu höggi með einni ferð.

Gangi þér vel.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar