Fór bara svona að pæla í þessu alltieinu en ef manneskja sem er 16-17 ára stundar kynlíf með manneskju sem er 24-25. Getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir báðar manneskjunar? Getur sú eldri verið kærð eða jafnvel fengið tíma í fangelsi eða er það tæpt. Langaði aðeins að kynna mér svona reglur betur :))
Sæll og takk fyrir spurninguna
Í almennum hegningarlögum er ákvæði þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun sér eldra fólks.
Í lögunum segir orðrétt: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum. Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Til að svara spurningu þinni þá er hvorugur aðilinn í órétti í þessu sambandi. Ég ætla samt að láta fylgja hér með ábendingum frá umboðsmanni barna varðandi þetta mál:
• Enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
• Hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra.
• Kynlíf á að snúast um vellíðan, ánægju, virðingu, traust og ábyrgð.
• Mikilvægt er að unglingar tileinki sér virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einstaklingur sem þekkir verðleika sína og býr yfir nægilegri sjálfsvirðingu til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er, á auðveldara með að sneiða hjá óæskilegri kynlífsreynslu.
• Mikilvægt er að sýna ábyrgð, lesa sér til um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og veirusmit og hafa í huga að kynlíf með öðrum getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan.
• Líkurnar á alvarlegum afleiðingum kynlífs, eins og kynsjúkdómum og þungunum, aukast eftir því sem unglingar byrja fyrr að stunda kynlíf og bólfélögum fjölgar.
Bestu kveðjur.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?