Mér gengur illa að mynda vinasambönd, hvað get ég gert?

464

Hæhæ, ég er 18 ára stelpa og var að flytja til Reykjavíkur og byrja í nýjum menntaskóla í þriðja skiptið. Ég hef aldrei lent í einelt né neitt svoleiðis, en ég á erfitt með að eignast vini. Ég held að ég eigi svona erfitt með að eignast vini af því að ég á erfitt með að tala þegar ég er í hópi krakka með meira en tveimur í og á erfitt með að finna eitthvað til að segja. Ég kannast við tvær stelpur í skólanum en er bara með þeim í sumum tímum og ef ég sé annað hvort þeirra einhvers staðar annars staðar en í tíma, læt ég eins og ég hafi ekki séð þær því þær eru með vinkonum sínum og þá get ég ekki sagt mikið. Mér gengur ágætlega í skólanum en er byrjuð að hugsa mjög neikvætt eins og að ég muni aldrei eignast vini, ég er of ljót, kannski er ég bara leiðinleg, ég er asnaleg fyrir að eiga enga vini o.s.frv.  Ég get ekki einu sinni setið ein í matsalnum svo ég borða alltaf einhvers staðar þar sem engin er eða fer heim að borða, þannig að engin viti að ég eigi enga vini.

Mér finnst þetta mjög leiðinlegt og græt oft útaf þessu þegar ég er heima, mér finnst ég bara einhvern vegin allt öðruvísi en þessir krakkar í skólanum. Ég er lítið á samfélagsmiðlum, er frekar róleg en allir leita eftir krökkum sem eru háværir og athyglissjúkir. Þetta er örugglega allt út um allt en ég veit bara ekki nákvæmlega hvernig ég á að koma þessu frá mér. Mér finnst einhvern vegin eins og ég muni alltaf vera ein og aldrei eignast neinn sem mér er annt um, hvorki vin né kærasta, og þess vegna er ég farin að hugsa hvort lífið sé þess virði að lifa það. Ég er bara svo rosalega viss um að ég muni enda alein að eilífu amen. Ég vona að þið hafið einhverja lausn fyrir mig, ég vil ekki fara til ráðgjafa né neitt slíkt því ég get ekki talað án þess að grenja(er svo viðkvæm), þannig að ég held að ég sé bara dauðadæmd hehe…:(

Mikið er leitt að heyra um þessa líðan hjá þér.  Þetta er búið að vera í gangi lengi heyrist mér og sannarlega kominn tími til að leita hjálpar.  Þú verður að tala við einhvern stelpa mín.  Það gerir ekkert til þó þú grátir.  Ráðgjafar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, námsráðgjafar eru alls ekki óvanir því þó að skjólstæðingur gráti í viðtali.  Það gerir ekkert til og getur bara verið gott.  Það hjálpar kannski ekki að segja að þú ert ekki ein um að líða svona en ég ætla samt að gera það.  Þú ert ekki ein, það eru krakkar í skólanum þínum sem líður svona líka.  Það eru líka krakkar í skólanum sem hafa tekið eftir þér og vilja alveg spjalla ef þú ert til, alls ekki allir fíla háværu athyglissjúku krakkana.   

 

Ég veit það er erfitt, það er erfitt að byrja samræður þegar sjálfstraustið er lítið..og ég veit það er lítið þar sem þú ert farin að hugsa þessar neikvæðu hugsanir sem brjóta þig niður.  Einmitt þessvegna þarft þú að tala við einvhern sem getur hjálpað þér að byggja þig upp.  Skoða þessar hugsanir, sem oftar en ekki eru að ljúga að þér, hjálpa þér að finna aðferðir til að sjá styrkleikana þína, möguleika og það jákvæða við þig.  Þú átt jafn mikinn rétt og allir hinir, þú mátt taka jafn mikið pláss og röddin þín er jafn mikilvæg og allra hinna þó þú sért ekki hávær.  Þú þarft ekki að breytast neitt, þú þarft bara að treysta á að þú sért flott eins og þú ert og það sé fólk þarna úti sem kann að meta góða, trausta og rólega vinkonu.

Tékkaðu á hvaða stuðningur er í boði í skólanum þínum.  Kannski er skólahjúkka, læknir eða sálfræðingur.  Mjög líklega er námsráðgjafi.  Þú gætir byrjað þar, kannski bara byrja á að senda póst ef þú treytir þér ekki til að mæta í viðtal strax.   Þú gætir líka rætt þetta heima og óskað eftir stuðningi til að hitta sálfræðing.  Það má hver sem er panta tíma..tíminn getur reyndar kostað mikið en það væri líka hægt að athuga með tíma hjá sálfræðingi gengum skólann eða heilsugæsluna þína.  Kannski hægt að fá ódýrari tíma ef að þú þarft á því að halda.

Ef þú ert alls ekki til í að tala við neinn þá skaltu skoða hvað þú getur gert sjálf.  T.d. lesið sjálfshjálparbækur, t.d. Anna Valdimars..Leggðu rækt við sjálfa þig.  Einnig hef ég mikla trú á mindfulness og þú gætir skoðað app sem heitir Head space.  Það er auðvelt að nota og með því getur þú æft þig í að þekkja hugsanir þínar og fá stjórn á tilfinningum.

Endilega taktu næsta skref og talaðu við ráðgjafa. Vona þú farir vel með þig.  Þú ert þess virði.  Velkomið að skrifa aftur ef þú vilt spyrja meira.

Kveðjur frá tótal.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar