Sæl verið þið.
mér líður eins og ég sé of þung og feit. Ég get ekki hætt að hugsa um það og í hvert skipti sem ég borða líður mér ógeðslega illa, fæ kvíða, finn fyrir depurð og ég skammast mín fyrir það og refsa mér fyrir það eitt að hafa borðað, ég refsa mér t.d með því að svelta mig. Ég er 46 kg og 162 á hæð, og mér líður eins og það sé of þungt og að ég þurfi allavega að missa 7 -10 kg. þetta hefur alveg rosaleg áhrif á líf mitt og ég veit ekkert hvað skal gera.
Kærar þakkir fyrir að senda okkur línu.
Það er mjög sárt að heyra að þér líði illa þegar þú borðar, því maturinn er jú eldsneytið sem líkaminn þarfnast til að komast í gegnum daginn.
Þessi einkenni sem þú nefnir gætu verið merki um einhverskonar átröskun. Það er mjög gott, ef þú treystir þér til, að ræða þetta við einhvern í fjölskyldunni eða í vinahópnum til að fá stuðning með þetta mál. Einnig gæti verið gott að ræða þessar áhyggjur þínar við heimilislækni eða sálfræðing. Það getur verið sniðugt að hafa samband við næringarfræðing og fá plan um holla og næringarríka fæðu sem hafa góð áhrif á líkamann. Það eru því miður margir sem eiga í óheilbrigðu sambandi við mat, hvort sem er að borða of lítið eða of mikið. Þetta er allt spurning um jafnvægi og að finna holla og næringarríka fæðu sem hentar þér.
Hérna eru einnig gagnlegir staðir til að leita aðstoðar á:
- Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna í sínu hverfi til að fá greiningu og ráðleggingar um meðferð.
- Hægt er að mæta án þess að panta tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, milli klukkan 12 og 19 alla virka daga, og spjalla við fagaðila. Einnig er hægt að panta viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi, en það kostar 4.688 krónur. Síminn á Landspítalanum er 543-1000.
- MFM Miðstöðin veitir fræðslu um átraskanir.
Gott er að forðast skyndilausnir eins og sykraðan og saltaðan mat og einblína á trefjar og holla fitu.
Skv. BMI-stuðli mælist þú undir kjörþyngd eða með 17,5 stig en það að vera of létt miðast við 18,5 og undir. Eðlilegt þykir að vera á milli 18,5-24,9 sem þýðir að þú gætir í raun bætt á þig 19 kg og enn fallið undir eðlilegan BMI-stuðul. BMI-stuðull er þó aðeins viðmiðun og er ekki gott að bera sig alfarið við þann stuðul.
Það er margt sem getur gerst fyrir líkama okkar þegar við borðum of lítið. Algengt er að ýmis húðvandamál blossi upp, og að tennurnar verða viðkvæmari,. Einnig getur ónæmiskerfið veikst, og, þú gætir fundið fyrir síþreytu, blóðleysi, fengið óreglulegar blæðingar eða þær stoppað alveg og hefur þannig áhrif á frjósemi.
Gangi þér sem allra best
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?